Kranar! Kranar! Kranar!

Halldór Armand
 · 
Lestin
 · 
Pistlar
 · 
Menningarefni

Kranar! Kranar! Kranar!

Halldór Armand
 · 
Lestin
 · 
Pistlar
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
14.02.2018 - 11:40.Vefritstjórn.Lestin
Hvað merkja þessir kranar fyrir ofan okkur, af hverju snúast þeir og hvernig eigum við að bregðast við þegar þeir byrja að hægja á sér og fyrirsagnirnar taka að stækka á morgnana?

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Byggingarkranarnir, sem eftir efnahagshrun þóttu tákngera svo vel allt það sem var að á bóluárunum á Íslandi, eru núna í tísku aftur, og þykja að nýju, tæpum 10 árum síðar, vera tákn um hversu mikið er á seyði á Íslandi, hvað allt gengur vel, það er allt kraumandi hérna, það vellur úr pottinum, öll hótelin, allar 83 milljóna króna íbúðirnar, allar framkvæmdirnar, allur gróðinn, það er ný sending af jökkum væntanleg í BOSS-búðina, einhvers staðar yfir Esjubergi líður þyrla í átt til Reykjavíkur, eins og dregin áfram á streng, og inni í henni nýútskrifaður tukthúslimur, dúðaður 66N úlpu, þambandi ískaldan Aquarius, segjandi við Alþingismann í símann, nei, ekki þannig, við þurfum svona, ekki hitt, og 300 hestafla kaggar þjóta urrandi eftir Sæbrautinni, ná grænu, 300 námsmenn veifandi kampavínsflöskum í Ingólfsstræti, 300 Patrick Batemanar eða Markúsar Halberstramar lokandi dílum í Túninu, einn Chai Latte takk, Instagram-myndir frá ljúfa lífinu í Kaliforníu, við kvörtum ekki hérna í austurrísku brekkunum, geggjað í Berlín, kostar náttúrulega ekkert þarna úti, og yfir þessu öllu kranar, kranar, kranar, yfir þessu öllu voma kranar, kranar, kranar, sömu kranarnir hringsólandi yfir ævintýraeyjunni í norðri, aftur og aftur, svo hratt að þeir gætu tekist á loft á hverri stundu, já sjáðu, mamma, allar sætu endurnar á vatninu, pabbi, sjáðu, þessi fer sláin inn, ég lofa, ó systir systir, brátt kem ég og kný á þínar dyr til að leiða þig út í dagsljósið, út í hina hækkandi sól, og ég mun sýna þér kranana aftur í réttu ljósi, ég sýni þér inn í hugarfylgsni hvers einasta krana, innri krana hvers einasta krana, og þú munt sjá að ég er ekki samur, ég er breyttur, ég er annar og betri og í þetta sinn geturðu treyst mér, láttu mig fá pin-númerið hennar ömmu, ég lofa, ég er góður fyrir því, þetta er allt öðruvísi núna, og strákarnir hjá Gamma segja meira að segja að ég geti fengið að hitta Ray Parlour í átta sekúndur eftir leikinn í kvöld.

Ó systir, ó systir, svo mun þetta allt saman enda, sannleikurinn trítlar fram á varir mínar en það er engin lúðrasveit sjáanleg. Betri er hryggð en hlátur því að þegar andlitið er dapurt líður hjartanu vel. Og ég veit að þú skilur þetta betur en ég. Hugsanirnar sem skína skært eins og demantar í höfði þínu, tilfinningarnar sem brenna upp hjarta þitt, verkurinn í tánni, hagtölurnar, martraðirnar sem lífga við nóttina, gusturinn sem dansar við gluggatjöldin, þjáningin, hamingjan, fólkið, erfiðu tímarnir, gráturinn og gleðin, allt sem skiptir þig máli og allt sem skiptir þig ekki máli, hótelin rísa og hníga, Bláa lónið verður tappað á flösku og selt bakverði í Pepsideildinni á b5 á afmælisdaginn hans, 83 milljóna króna íbúðirnar verða að dufti og ösku, viskan verður að dufti og ösku, þú verður að dufti og ösku, Guð blessi Ísland, allt saman endar þetta, með tilheyrandi myndlíkingum um hafið, allt saman hverfur þetta, allt saman fer þetta, eins og Steinar Bragi gat málað í þúsund myndum, allir vegir leiða til eigin endaloka, að eigin niðurstöðu, að eigin úrslitum, og við læðumst hönd í hönd gegnum skóginn og niður að strönd tímans með bundið fyrir augun, og hvaða lag er það sem ég heyri í fjarska, nú sperri ég þyrst eyrun sem aldrei fyrr, hvert er það stef sem ég heyri þig blístra handa hinu liðna, hvaða spásögn viltu þylja í nafni hins góða? Veistu, ég vil ekki heyra það, nei, hlífðu mínum hlustum. Syngdu frekar fyrir mig eitthvað frá öld sakleysisins, eitthvað með Skítamóral, etthvað með gröðu riffi og kröftugum trommuleik, eitthvað frá þeim tíma sem ég var ennþá með vængina á bakinu.

Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma. Já, allt líður undir lok, gracias y adios, nú er gítarinn spenntur ofan í tösku, tónlistarmennirnir prófa kveikjarann, kviss kviss, og hatturinn er látinn ganga borða á milli, hérna kemur hann, og mér finnst það allt í lagi, tíminn má líða fyrir mér, ég tek því, já, ég get feisað það, hérna, taktu aleigu mína, bíddu það er meira hérna í vasanum, dokaðu við, taktu allt og meira til, því veistu hvað, ég hlakka til þess dags sem við verðum tveir litlir og rykfallnir steingervingar, lagðir hlið við hlið út í sólskinið, og botnum hvort fyrir öðru klausuna frægu um hvernig gærdagarnir allir lýstu leið flónum í dauðans duft, og kannski verða kranarnir þá aftur teknir að snúast yfir borginni, enn á ný, aftur og aftur, hring eftir hring, í nýrri endurtekningu, í nýrri öld sakleysis, lífið verður aftur það sem gerist meðan krani byggir hús.

Sagt er að mannkynssagan taki stökk, en mannlegt líf — þessi sljói farandsskuggi, þessi leikari —  smellir aðeins fingrum. Þannig gerir það vart við sig í brjósti þess sem lifir því. Lætur allt birtast og tekur allt í burtu á svipstundu. Hvaða gagn hefur maðurinn af öllu erfiði sínu sem hann streitist við undir sólinni? Lífið heldur áfram og skilur allt eftir, sogar í sig allt og alla sem skipta okkur máli, allt sem við elskum, allt sem við þráum að losna undan, allt sem leggur okkur af velli, það virðist sem heimurinn allur sé eitt stórt svarthol og kjósi að sturta sjálfum sér niður án afláts, en ferðalagið sjálft ofan í djúpið er ægifagurt, lamandi fallegt og uppfullt af merkingu, merking og undur og heillandi leyndardómar djúpandi eins og hunang niður hvern einasta ljósastaur, já, af hverju er það svo, og hvaðan komum við, og hvert stefnum við og hvað á okkur að finnast um það, verður okkur ekki að finnast eitthvað, er það ekki eitt af því sem gerir okkur að því sem við erum, að okkur finnst alls konar um allt, það getur ekki verið nóg að leggja á flótta frá spurningunum inn í símann eða afgreiða þær sem banal eða flatneskjukenndar, vegna þess að það sem er satt reynist oftar en ekki vera banalt og flatneskjukennt þegar maður reynir að færa það í orð.

Já, hvað merkja þessir kranar fyrir ofan okkur, af hverju snúast þeir og hvernig eigum við að bregðast við þegar þeir byrja að hægja á sér og fyrirsagnirnar taka að stækka á morgnana?

Kannski sannast þá hið fornkveðna, kannski sannast þá sú mörg þúsund ára speki, sem heldur áfram að gera okkur bilt við og um leið koma engum á óvart:

Vindurinn gengur til suðurs
og snýr sér til norðurs,
hann snýr sér og snýr sér
og hringsnýst á nýjan leik.

og svo síðar í sama texta:

Vertu í góðu skapi á góðum degi
og hugleiddu þetta á illum degi:
Guð hefur gert þennan dag alveg eins og hinn
til þess að maðurinn verði einskis vísari um það sem síðar kemur.

Tengdar fréttir

Trúarbrögð

Sáttmálinn við Guð í tukthúsinu

Menningarefni

Pólitík í Pizzulandi

Menningarefni

Fimm mínútna kortér með Dostojevskí

Menningarefni

Vertu skítsæmileg útgáfa af sjálfum þér