Konur í Sádi-Arabíu fá að taka bílpróf

26.09.2017 - 21:33
epa06229013 (FILE) A Saudi woman sits behind the wheel of a car in Riyadh, Saudi Arabia, 28 October 2013 (reissued on 26 September 2017). According to reports on 26 September 2017, Saudi Arabia’s King Salman bin Abdulaziz Al Saud has issued a decree that
 Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Skref í átt til jafnréttis var stigið í Sádi-Arabíu í dag þegar tilkynnt var að konum yrði leyft að taka bílpróf og aka farartækjum.

Í áraraðir hefur konum í Sádi-Arabíu verið bannað að aka. Lagabreytingin tekur gildi í júní á næsta ári og var tilkynnt um hana í ríkissjónvarpi landsins í dag. Stjórnvöld vona að með því að aflétta akstursbanni kvenna geti þær tekið virkari þátt á vinnumarkaði en algengt er að þær verji drjúgum hluta launa sinna í greiðslur til bílstjóra, að því er Guardian greinir frá. 

Mannréttindasamtök í landinu hafa lengi barist fyrir rétti kvenna til að aka farartækjum. Árið 2013 voru nokkrar konur handteknar fyrir það athæfi að hafa ekið bíl. Ein þeirra sem var handtekin er Manal al-Sharif og hefur hún verið einn helsti talsmaður baráttunnar fyrir rétti kvenna til að taka bílpróf. Hún fagnaði tíðindunum í dag og sagði í tísti á Twitter að síðasta ríkið í heimi hafi gefið konum leyfi til að keyra. „Okkur tókst það,“ skrifaði hún. 

 

 

Dagný Hulda Erlendsdóttir