Konur í Sádi-Arabíu fá að fara á fótboltaleiki

12.01.2018 - 21:05
epa06434051 Saudi families arrive to the King Abdullah Sports City known as 'a radiant jewel' to record the first female presence in the audiance of a Saudi professional soccer league, in Jeddah, Saudi Arabia, 12 January 2018. During Al Ahly and
 Mynd: EPA
Konum í Sádi-Arabíu var í fyrsta sinn í dag heimilt að sitja í stúku á fótboltaleikvangi og horfa á leik. Árum saman hefur slíkt verið bannað í landinu enda hefur frelsi kvenna þar verið skert á ýmsan hátt með lögum. Krónprins landsins hefur boðað umbætur og aukið frelsi kvenna og er leyfi til að fara á fótboltaleiki hluti af þeim umbótum. Í júní verður konum í Sádi-Arabíu heimilt að taka bílpróf.

Leikurinn í dag fór fram á leikvangi sem kenndur er við Abdullah konung og er í borginni Jedda. Fjöldi kvenna mætti á leikinn og voru margar þeirra klæddar í trefla, merkta sínu liði. Þær þurftu að fara inn á leikvanginn í gegnum hlið sem sérstaklega eru ætluð konum og fjölskyldum, að því er Guardian greinir frá. 

„Þetta sannar að við eigum bjarta framtíð fyrir höndum. Ég er mjög stolt af því að hafa upplifað þessar miklu breytingar,“ hefur AFP fréttaveitan eftir Lamya Khaled Nasser, 32 ára gamalli konu frá Jedda.   

Yfirvöld í Sádi-Arabíu lýstu því yfir í gær að konum yrði einnig leyft að fara á fótboltaleik næsta laugardag og þriðjudag. Gera þarf breytingar á fótboltaleikvöngum í Sádi-Arabíu áður en þeir verða opnir öllum. Aðrir fótboltaleikvangar í landinu verða tilbúnir til að taka á móti bæði konum og körlum í byrjun næstu leiktíðar. Þar verða einnig sér kaffihús og bænaherbergi fyrir konur.

Á síðasta ári tilkynntu yfirvöld í landinu að í júní á þessu ári myndu konur fá leyfi til að taka bílpróf en það hefur verið bannað í landinu árum saman. Í gær mætti fjöldi kvenna á bílasýningu í Jedda sem ætluð var konum.

Harðlínumenn í landinu hafa mótmælt því aukna frjálslyndi sem Mohammed bin Salman, krónprins, hefur boðað. Þrátt fyrir þessar umbætur þurfa konur í landinu enn leyfi karlmanns í fjölskyldunni til ýmissa athafna. Réttindi kvenna í landinu hafa árum saman verið skert og haft þær afleiðingar að aðgengi þeirra að vinnumarkaði og samfélaginu almennt er takmarkað.