Konungur eignaðist einkanýlendu með prettum

13.01.2018 - 13:38
Hvað gerir metnaðargjarn konungur sem vill að ríki sitt söðli um og eignist nýlendu í Afríku, en þegnar hans og ríkisstjórn eru ekki sammála? Undir lok nítjándu aldar stóð Leópold II, konungur í Belgíu, frammi fyrir þessu vandamáli — en var þó ekki lengi að finna lausnina. Hann myndi bara stofna sína eigin persónulegu nýlendu.

Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallar um sögu Kongó í miðri Afríku. Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Leópold II (1835-1909) og Stanley (1841-1904).

Frægur landkönnuður gekk erinda konungs

Um 1878 fól Leópold II Belgakonungur breska landkönnuðinum Henry Morton Stanley, sem hafði þá nýlega kortlagt farveg Kongófljótsins mikla, að snúa aftur til Afríku og hjálpa sér að leggja undir sig landsvæði í hjarta álfunnar.

Stanley fékk innfædda þorps- og ættbálkahöfðingja til að skrifa undir samninga þar sem þeir fólu í raun Belgakonungi alræðisvald á landsvæðum sínum — en í fæstum tilvikum vissu höfðingjarnir undir hvað þeir voru að skrifa, og ef þeir þráuðust við beittu Stanley og menn hans hótunum og ofbeldi.

Sölsaði undir sig land undir yfirskini mannúðarstarfs

Heima fyrir stofnaði Leópold konungur það sem hann kallaði mannúðarsamtök og hélt því fram við evrópsku nýlenduveldin að hann hefði aðeins það markmið að bæta líf innfæddra og færa þeim vestræna siðmenningu.

Að lokum tókst honum að sannfæra Vesturveldin um að veita honum yfirráð yfir gríðarstóru landsvæði við Kongófljótið — alls um tveimur og hálfri milljón ferkílómetra þar sem bjuggu um tuttugu milljónir manna — og 1885 stofnaði Leópold II formlega Fríríkið Kongó, alveg án aðkomu belgíska ríkisins, þar sem þetta var hans persónulega einkanýlenda.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Kort af Fríríkinu Kongó.

Glæpir og blóðsúthellingar

Leópold II stjórnaði Kongó með harðri hendi. Þegar í ljós kom að skógar Kongó bjuggu yfir afar verðmætri auðlind hreppti hann innfædda í raun í þrældóm, og þeim sem ekki hlýddu var refsað á grimmilegan hátt.

Þegar stjórnarhættir konungsins í nýlendunni fóru að spyrjast út á Vesturlöndum varð það mikið hneyksli og alþjóðlegt baráttumál. Leópold neyddist á endanum til að afsala sér völdum, en þá höfðu að öllum líkindum milljónir saklausra Kongóbúa fallið af hans völdum.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Kongóskur maður virðir fyrir sér afskorna hönd dóttur sinnar.
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Edmund Morel og Roger Casement leiddu baráttuna gegn Leópold II.

Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09:05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18:10. Fyrri þætti má finna í hlaðvarpi RÚV og á síðu þáttarins

Mynd með færslu
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður
Í ljósi sögunnar
Þessi þáttur er í hlaðvarpi