Kjarnorkuafvopnun forsenda friðar á Kóreuskaga

10.01.2018 - 03:49
epa06427995 South Korean President Moon Jae-in (R) holds a press conference to deliver an address for the new year at the presidential office Cheong Wa Dae in Seoul, South Korea, 10 January 2018. Moon called on lawmakers to expedite consultations on a
 Mynd: EPA-EFE  -  YNA
Forseti Suður Kóreu, Moon Jae-In, segist reiðubúinn að ræða við Kim Jong-Un, leiðtoga Norður Kóreu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, og ítrekar að kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans sé markmiðið og „leiðin að friði." Á fréttamannafundi snemma á miðvikudagsmorgun, daginn eftir fund erindreka Norður- og Suður Kóreu, sagði Moon mikilvægt að vinna áfram að því að tryggja að leikarnir í febrúar yrðu „friðar-Ólympíuleikar" því brýnt sé að leysa kjarnorkudeiluna á Kóreuskaganum með friðsamlegum hætti.

Sendinefndir mannaðar fimm háttsettum stjórnmála- og embættismönnum frá hvoru tveggja ríkjanna funduðu á þriðjudag í „friðarþorpinu" Panmunjom, sem er á hlutlausa beltinu sem skilið hefur löndin að frá því samið var um vopnahlé í Kóreustríðinu 1953. Á fundinum náðist meðal annars samkomulag um að Norður Kórea sendi fjölmennt lið keppenda, listafólks, embættismanna og stuðningsfólks á Vetrarólympíuleikana sem hefjast sunnan landamæranna í febrúar.

Voru þetta fyrstu beinu viðræðurnar milli ríkjanna í tvö ár, en spenna hefur vaxið mjög á Kóreuskaganum síðustu mánuði og misseri vegna síendurtekinna kjarnorku- og eldflaugatilrauna norðanmanna annars vegar, og síendurtekinna og umfangsmikilla heræfinga sunnanmanna í samkrulli við Bandaríkjaher hins vegar.

Fundurinn aðeins fyrsta skrefið

Á fréttamannafundinum í morgun sagði Moon fundinn mikilvægt skref í rétta átt, en lagði jafnframt áherslu á að hann væri bara byrjunin. Þetta hefði hins vegar verið góð byrjun. Næsta skref yrði að felast í því að fá Norður-Kóreumenn til að semja um kjarnorkuafvopnun. Hét Moon því að halda áfram að vinna að friði milli bræðraþjóðanna. „Ég mun losa okkur úr viðjum óttans og tortryggninnar sem skotið hafa djúpum rótum í lífi fólks. Skref fyrir skref, með hjálp fólksins í landinu, mun ég koma á friðsamlegri og traustri tilveru, þar sem almenningur er laus við áhyggjur af stríði.“ 

Sagðist Moon geta boðað til leiðtogafundar hvenær sem er, ef aðstæður byðu upp á það. Hann hefði þó engan hug á því að halda fund, fundarins vegna; kjarnorkuafvopnun væri ófrávíkjanleg forsenda og meginmarkmið slíks leiðtogafundar. 

Á fundinum á þriðjudag náðist ekki einungis samkomulag um þátttöku norðanmanna í Olympíuleikunum. Þar var líka sæst á að stefna að endurfundum fjölskyldna, sem ekki hafa hist frá því samið var um vopnahlé 1953. Þá var samþykkt að koma aftur á beinni neyðarsamskiptalínu milli æðstu stjórnenda heraflans, beggja vegna landamæranna, en sams konar lína var aftengd fyrir tveimur árum. 

Í sameiginlegri yfirlýsingu viðræðunefndanna segir að ákveðið hafi verið að hefja undirbúning beinna viðræðna milli ríkjanna sem miða eiga að því að draga úr vígbúnaði, vopnabrölti og spennu á Kóreuskaganum og bæta samskipti og sambúð ríkjanna á ýmsum sviðum. Samkvæmt upplýsingum úr herbúðum sunnanmanna munu fulltrúar Norður-Kóreu þó hafa tekið öllum hugmyndum um kjarnorkuafvopnun fálega. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV