Kjaradeila flugmanna „á viðkvæmu stigi“

09.01.2018 - 18:00
Kjaradeila flugmanna hjá Icelandair er á viðkvæmu stigi. Þetta segja bæði ríkissáttasemjari og forsvarsmenn samninganefndar flugmanna. Fyrsti fundur í deilunni síðan í nóvember var í dag. Annar fundur hefur ekki verið boðaður.

Samningar flugmanna hjá Icelandair hafa verið lausir síðan í lok september og var kjaradeilu þeirra við Icelandair vísað til ríkissáttasemjara um svipað leyti. Átta fundir voru haldnir í deilunni þar til í lok nóvember, þegar hlé var gert á viðræðunum á meðan kjaradeila flugvirkja hjá Icelandair stóð sem hæst. Þeirri deilu lauk með stuttu verkfalli, áður en samningar náðust skömmu fyrir jól.

Í dag var því fyrsti fundur í kjaradeilu flugmanna Icelandair og samninganefndar fyrirtækisins í næstum einn og hálfan mánuð. Fundurinn, sem var hjá ríkissáttasemjara, hófst klukkan eitt í dag og stóð í um 90 mínútur.

„Viðræðurnar gengu þannig séð ágætlega en deilan er á viðkvæmu stigi. Fundinum lauk klukkan hálf þrjú og við höfum ekki ákveðið hvenær næsti fundur verður. En ég geri ráð fyrir að hann verði boðaður mjög fljótlega. En það eru viðræður í gangi,“ segir Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari.

Ber mikið í milli?

„Ég vil kannski ekki tjá mig efnislega um það og má það ekki. En ég get staðfest það að viðræðurnar eru í gangi en þær eru vissulega á viðkvæmu stigi akkúrat núna.“

Hafa samningar flugvirkja einhver áhrif inn í þessar viðræður?

„Það er alltaf þannig að samningar annarra hópa hafa áhrif, sérstaklega ef um er að ræða viðmiðunarhópa eða hópa sem viðkomandi félag miðar sig við að einhverju leyti. Það er alltaf þannig.“

Bryndís segir að nú hittist deiluaðilar innbyrðis, áður en hún ákveður hvenær næsti fundur verður boðaður.

Forsvarsmenn samninganefndar flugmanna vildu ekki tjá sig um gang viðræðnanna þegar eftir því var leitað í dag, að öðru leyti en því að þær væru á viðkvæmu stigi.