Kemur til greina að flytja úrgang á Hólasand

10.01.2018 - 13:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson
Lækka mætti kostnað við fráveituframkvæmdir verulega með því að flytja salernisúrgang frá Mývatnssveit á Hólasand. Sveitarstjóranum líst vel á þessa leið, hún sé vænlegri til árangurs en fyrri hugmyndir.

Fráveitumál hafa verið til vandræða við Mývatn og hefur fólk áhyggjur af áhrifum á lífríki. Skútustaðahreppur og rekstraraðilar vinna samkvæmt umbótaáætlun og hefur verið rætt um að koma upp hreinsistöðvum í þéttbýliskjörnunum, Reykjahlíð, Vogum og Skútustöðum. 

Hagkvæmara en hreinsistöðvar

Ný hugmynd var kynnt á fundi sem haldinn var í Mývatnssveit á föstudag. Í henni felst að svartvatni, sem kemur úr salernum, verði safnað saman og flutt á Hólasand þar sem það verði nýtt sem næringarefni. „Þetta er talin mjög hagkvæm lausn ef maður ber saman við hreinsistöðvarnar og náttúrulega mun sjálfbærari lausn á allan hátt því þarna nýtast næringarefni til uppgræðslu,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps. 

Kostnaður sveitarfélagsins vegna fráveituframkvæmda hefur verið áætlaður um 700 milljónir króna og hefur verið rætt við stjórnvöld um fjármögnun. Þorsteinn segir þessa leið ódýrari en að setja upp hreinsistöðvar. „Það er auðvitað of snemmt að segja til um það, en þetta er umtalsverður sparnaður,“ segir Þorsteinn.  

Vinna gull úr sulli

Landgræðslan á frumkvæði að þessari aðferð og hefur prófað hana í Hrunamannahreppi með góðum árangri. Samkvæmt lögum og reglum þarf að hreinsa 75% næringarefnanna en Þorsteinn segir að ef stóru rekstraraðilarnir hreinsi þeim mun betur sé hægt að komast hjá því að setja upp hreinsistöðvar í þéttbýli. Í því felist sparnaðurinn. Þorsteinn segir að málið sé á byrjunarstigi, en þetta sé nálgun sem honum hugnist vel og gæti leyst vandann. „Þarna er í raun verið að taka það sem sumir kalla sull og vinna þetta þannig að það sé nokkurs konar gull,“ segir Þorsteinn Gunnarsson.  

Mynd með færslu
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV