Keflavík er bikarmeistari 2018

13.01.2018 - 18:09
Keflavík vann í dag 11 stiga sigur á Njarðvík í úrslitum Maltbikarsins en Keflavík hefur nú unnið 15. bikarmeistaratitla. Eftir jafnan leik þá stungu Keflvíkingar endanlega af undir lokin og lokatölur því 74-63 Keflavík í vil.

Byrjunarlið Keflavíkur í dag var skipað þeim Salbjörgu Rögnu Sævarsdóttur, Thelmu Dís Ágústsdóttur, Emblu Kristínardóttur, Brittanny Dinkins og Ernu Hákonardóttur. Byrjunarlið Njarðvíkur var skipað þeim Maríu Jónsdóttur, Shalondu R. Winton, Hrund Skúladóttur, Ernu Freydísi Traustadóttur og Björk Gunnarsdóttur.

Embla fór fyrir Keflavík í 1. leikhluta

Embla Kristínardóttir skoraði fyrstu körfu leiksins og kom Keflavík þar með yfir. Setti hún þar með tóninn fyrir leik sinn í 1. leikhluta hún var allt í öllu í sóknarleik Keflavíkur í upphafi leiks. 

Keflavík komst 6-1 yfir áður en Njarðvík tókst að jafna leikinn í 6-6. Þá gáfu Keflavíkurkonur aftur í og komust 15-9 yfir þegar lítið var eftir af 1. leikhluta, á þeim tíma var Embla komin með 9 stig eða jafn mikið og allt Njarðvíkur liðið til samans. 

Njarðvík náði þó að minnka muninn niður í 3 stig áður en 1. leikhluta lauk, staðan 15-12 að honum loknum.

Njarðvík kom til baka og allt í járnum í hálfleik

Keflavík byrjaði 2. leikhluta af krafti og breyttu stöðunni í 19-12 áður en Shalonda R. Winton kom Njarðvík á blað með góðri þriggja stiga körfu. Shalonda átti eftir að sýna sínar bestu hliðar í 2. leikhluta en þegar Keflavík var komið 8 stigum yfir, 28-20, þá tók hún leikinn hreinlega yfir. Hún var allt í öllu á báðum endum vallarins og hjálpaði Njarðvík að jafna leikinn í stöðunni 33-33 og þegar hálfleiksflautan gall þá var staðan jöfn, 35-35. 

Mynd með færslu
Það var hart barist í dag  Mynd: Tomasz Kolodziejski  -  RÚV

Risastór karfa er flautan gall

Keflavík byrjaði síðari hálfleikinn betur og voru með yfirhöndina nær allan leikhlutan þó svo að Njarðvík væri aldrei langt undan. Þær voru samt sem áður 5 stigum yfir þegar leikhlutinn var við það að renna út. Sú forysta var þó orðin 8 stig þegar flautin loksins gall en Kamilla Sól Viktorsdóttir tók þriggja stiga skot sem söng í netinu í þann mund sem flautan gall. Staðan 54-46 fyrir 4. leikhluta.

Njarðvíkurkonur þurftu á endanum að játa sig sigraðar

Keflavík byrjaði 4. leikhluta af krafti og náðu fljótlega 10 stiga forystu sem var að 12 stiga mun skömmu síðar. Enn og aftur komu Njarðvíkurkonur til baka en þeim tókst að minnka muninn niður í 5 stig um miðbiks 4. leikhluta.

Nær komst Njarðvík ekki en Keflavík steig á bensíngjöfina og svo gott sem tryggði sér sigurinn með frábærum kafla í kjölfarið sem kom þeim 11 stigum yfir þegar aðeins tvær mínútur voru eftir af leiknum. Á endanum var það munurinn sem skyldi liðin að en lokatölur leiksins voru 74-63 Keflavík í vil. Er þetta 15. bikarmeistaratitill í sögu Keflavíkur og þeirra annar í röð.

Tölfræði leikmanna

Embla Kristínardóttir var frábær í liði Keflavíkur en hún setti niður 20 stig ásamt því að taka 6 fráköst og gefa 2 stoðsendingar. Þá voru Brittanny Dinkins og Thelma Dís Ágústsdóttir með 16 stig hvor. Brittanny tók einnig 11 fráköst og gaf 8 stoðsendingar á meðan Thelma Dís tók 9 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Hjá Njarðvík var Shalonda R. Winton allt í öllu sóknarlega en hún setti 37 stig í dag ásamt því að taka heil 23 fráköst. Næst stigahæst í liði Njarðvíkur var Erna Freydís Traustadóttir en hún setti 7 stig í leiknum. 

Viðtöl eru á leiðinni.

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður