Karlar hagnast ekki á að ræða vandann

Fjölmiðlar
 · 
Jafnréttismál
 · 
Morgunútvarpið
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni

Karlar hagnast ekki á að ræða vandann

Fjölmiðlar
 · 
Jafnréttismál
 · 
Morgunútvarpið
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
17.07.2017 - 12:55.Nína Richter.Morgunútvarpið
The Reykjavík Grapevine hefur sætt gagnrýni fyrir forsíðufrétt frá 6. júlí sl., þar sem gerð er úttekt á nýliðum í íslensku rappi, en engir kvenkyns-nýliðar voru tilgreindir í umfjöllun blaðsins. Ritstjórn hefur svarað gagnrýninni og segir vandamálið liggja hjá tónlistarfólkinu sjálfu, og gerir lítið úr ábyrgð fjölmiðla. Ritstjóri Grapevine, Valur Grettisson, segir einnig að blaðið hefði mátt leita betur.

„Hefðum mátt leita betur“

„Við játum kannski að við hefðum mátt leita betur, það hlýtur að vera einhver þarna úti, [ungar konur í rappi]. Það er spurning svo sem hversu lengi maður getur leitað að nýrri ungri konu,“ segir Valur Grettisson, ritstjóri. Hann segir jafnframt að hann líti ekki endilega svo á að aðstandendur blaðsins hafi haft rétt fyrir sér, en segir að umræðan á netinu sé á sérstökum slóðum. „Það er eins og umræðan á internetinu sé orðin dálítið einhæf og upphrópanaleg og skili ekkert sérstaklega miklum árangri, augljóslega.“

Blaðið hefur í framhaldinu undirbúið málþing um kynjahalla í íslensku rappi, sem Valur segir vera vettvang fyrir tónlistarmenn og aðra til þess að ræða stöðuna, „án þess að eiga á hættu að snúið sé út úr orðum þeirra. Það fannst okkur áhugaverðara, gera tilraun. Prófum að setjast niður og tala saman, það er kannski eitt ráð í þessu.“ Valur segist aldrei áður hafa nennt að setja sig inn í málið, en hafi að lokum gert það og þá hafi komið í ljós að það hallaði vægast sagt á konur. „En það á örugglega líka við um í rokki og víðar.“

Íslenskum konum ekki boðið í samstarf

Hann segir rappsenuna þó vera sérstaka í því tilliti að auðveldara sé fyrir rapptónlistarfólk að vekja athygli á öðrum í sama bransa: „Það er ekkert óhefðbundið að vinsælustu rapphljómsveitirnar úti [í útlöndum], þar eru til að mynda fengnir ungir nýliðar og það eru oft konur á meðal. Á Íslandi eru þetta aldrei konur, eins og til dæmis Úlfur Úlfur, og Emmsjé Gauti og Erpur Eyvindarson, sem eru kannski svona í framlínu rappsins og þeir allra þekktustu. Þeir hafa aldrei boðið konu að rappa með sér.“ Hann bætir við að hann telji að þetta sé ekki með vilja gert. 

Mynd með færslu
 Mynd: ÍSTÓN  -  RÚV
Reykjavíkurdætur á Íslensku tónlistarverðlaununum 2017

„Þeir tapa meiru en þeir græða“

Valur gagnrýnir harðlega umræðuna sem skapast hefur um þessi mál á netinu, og segir hana skelfilega á margan hátt: „Ég held að ég hafi hringt í á þriðja tug einstaklinga, þar af fjölda þekktra listamanna. Og það treysti sér ekki einn karlmaður til þess að tala um þetta á málþinginu. Það voru ýmsar ástæður, sumir í fríi og að spila eða hvernig sem það er, en þeir sögðu hreinlega: Það borgar sig ekki fyrir okkur að fara fram og tala um þetta mál opinberlega.“

Valur segir listamennina óttast viðbrögðin. „[Þeir] óttast að tapa meiru en þeir græða. Þeir segja bara: Þetta er ekki vandi sem við högnumst á að tala um. Það sögðu allir nei, bara flatt nei.“

Mynd með færslu
 Mynd: Emmsjé Gauti/Magnús Leifsson
Valur nefnir Emmsjé Gauta sem dæmi um listamann í framlínu rappsins.

Talaði í klukkutíma við hvern og einn

Hann segist þó hafa átt í klukkutímalöngum samræðum við hvern einasta listamann sem hann hringdi í. „Þetta tók langan tíma af því að allir höfðu áhuga á að tala, það vantaði ekki upp á það að sjónarmiðin voru til staðar. Og þeir voru allir á því að þeir vildu bæta stöðuna, en þeir sögðust ekki ætla að tala um þetta opinberlega.“

Hann segir tónlistarmennina taka undir kynjahallann. „Þeir segja að þetta sé rétt, það halli á konur. Og það sé ekki unnið nógu mikið með þeim. Og þeir segja að það sé frekar svona hörð kergja í gangi, að það sé hörð kergja í hip-hopinu og að hópar tali ekki saman og svo framvegis. Og það var augljóst að mörgum var mikið niðri fyrir og þetta var eiginlega bara svolítið sláandi að heyra um þennan litla áhuga á að tala og blanda sér ínn í umræðuna. Það sama átti við um margar konur.“ Valur tilgreinir þó engin nöfn í þessu samhengi. 

„Eins og áhuginn á rökræðum sé minni en enginn“

Formaður KÍTÓN, tónlistarkonan Lára Rúnarsdóttir, heldur erindi um stöðu kvenna í tónlist á málþinginu. „Sem er bara ágætis núllpunktur, og svo eru opnar umræður á eftir. Ef þessi hópur hefur áhuga á að mæta og langar að tala um þetta, þá erum við bara með þennan vettvang. Og við ætlum ekkert að skipta okkur af því þannig, við ætlum ekki að taka þátt í umræðunni,“ segir Valur.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tónlistarkonan Lára Rúnarsdóttir er formaður KÍTÓN

Hann biður þó ungar konur í rappi, sem hugsanlega gleymdust, að stíga fram á málþinginu: „ef það er einhver ung, snjöll kona sem við gleymdum, þá komdu og spjallaðu við okkur. En það er eins og áhuginn á rökræðum sé minni en enginn.“

„Og hugsun okkar er líka sú að við erum að reyna að taka ábyrgð á mistökum okkar, við viðurkennum alveg að við hefðum auðvitað átt að finna einhverja konu. En að sama skapi þá erum við menningarblað, þetta var ekki menningarpólitísk umfjöllun og þetta var bara staðan eins og hún er akkúrat núna. Þetta eru bara einhvejir 5-6 ungir strákar sem eru þessi nýja framlína, þessir glænýju krakkar,“ segir Valur.

„Það eru ekki við sem hvetjum tónlistarmenn“

Valur segir forsíðu Grapevine ekki breyta neinu um staðreyndir málsins, enda sé það ekki Grapevine sem framleiði tónlistarmenn: „Það eru ekki við sem hvetjum tónlistarmenn til að fara út í tónlist heldur eru það tónlistarmenn sjálfir, þeir eru sterkasta hreyfiaflið og þá verða þeir að pæla aðeins betur í því hvað þeir eru að gera og hvernig þeir gera það,“ segir Valur.

„Við ætlum að hafa þetta kl. 8 í kvöld á Kex Hostel. Þetta verður með óhefðbundnu sniði, þetta verður stutt erindi og svo opnar umræður. Við erum þarna ef einhver vill mæta“.

Valur Grettisson ræddi við Morgunútvarp Rásar 2 þann 17. júlí 2017. Að ofan á hlusta á viðtalið í heild sinni.

Fréttin hefur verið uppfærð 17.07.2017:

Málþinginu hefur verið frestað. Tilgreinir Valur Grettisson ástæðurnar í stöðuuppfærslu á Facebook en þar segir:

"Við á Grapevine höfum ákveðið að fresta fyrirhuguðu málþingi um stöðu kvenna í hip-hop tónlist sem átti að fara fram á Kex í kvöld, meðal annars að beiðni Kítón - en upp kom sú hugmynd af hálfu samtakanna að halda málþing síðar í samstarfi við þau. Það er ágætis lending að okkar mati. Formaður Kítón sagði í samtali við mig að þau hefðu áhuga á að halda fleiri málþing og þetta væri meðal þess sem þau vildu skoða. Við fögnum því. Það sem kom okkur kannski helst á óvart við skipulagninguna er að það virðist sem svo að lítill áhugi sé á að ræða málið á meðal tónlistarmannanna sjálfra og mikil kergja virðist vera komin í umræðuna, í það minnsta hjá mörgum tónlistarmönnum sem við ræddum við. Við vonum að þeir geti losað sig úr spennitreyjunni, sem umræðan virðist vera í, og taki þátt og láti sjónarmið sín í ljós í stað þess að þaga á hliðarlínunni."

Tengdar fréttir

Menningarefni

Segir að íslenska rappsenan sé strákaklúbbur

Tónlist

„Okkur er ekki alveg boðið“