Karen Millen yfirheyrð

13.03.2012 - 19:43
Mynd með færslu
Karen Millen, stofnandi samnefndrar tískuvörukeðju, var á meðal þeirra sem starfsmenn sérstaks saksóknara yfirheyrðu í Lundúnum í síðustu viku vegna rannsóknar embættisins á Kaupþingi.

Félög í eigu Karenar og Ólafs Ólafssonar eru grunuð um aðild að 66 milljarða króna umboðssvikamáli tengdu Deutsche Bank.

Fjórir starfsmenn sérstaks saksóknara fóru til Lundúna í síðustu viku og yfirheyrðu tug manna vegna rannsóknar embættisins á 66 milljarða króna láni Kaupþings til stærstu viðskiptavina sinna skömmu fyrir hrun. Stjórnendur Kaupþings reyndu þá að hafa áhrif á skuldatryggingarálag bankans, sem hafði hækkað mikið, með því að lána nokkrum af stærstu viðskiptavinum sínum fjármuni til þess að kaupa skuldabréf tengd skuldabréfaálagi Kaupþings af Deutsche Bank, einum stærsta banka í heimi. 

Rannsókn málsins byggist verulega á gögnum sem sérstakur saksóknari fékk afhent frá Kaupþingi banka í Lúxemborg sem nú starfar undir heitinu Banque Havilland.

Tvö félög fengu umrædd lán frá Kaupþingi. Fjallað er um viðskiptafléttuna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Félag í eigu Ólafs Ólafssonar, sem þá var einn stærsti hluthafi Kaupþings, og félag í eigu Skúla Þorvaldssonar, Grikkjans Tony Yerolemou sem sat í stjórn Kaupþings, Kevins Stanford og Karenar Millen, stofnanda samnefndrar tískuvörukeðju.

Rannsókn sérstaks saksóknara snýst um meint umboðssvik, að Kaupþing hafi borið alla áhættu vegna lánanna, sem veitt hafi verið án fullnægjandi veða. Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur sagt að viðskiptin hafi verið fyrir tilstuðlan Deutsche Bank en forsvarsmenn bankans neita því.

Starfsmenn Deutsche Bank sem komu að viðskiptunum voru á meðal þeirra sem fulltrúar sérstaks saksóknara yfirheyrðu í Lundúnum en efnahagsbrotadeild bresku lögreglunar veitti þeim liðsinni. Þá voru einhverjir eigenda umræddra félaga yfirheyrðir, þeirra á meðal Karen Millen, tískudrottningin sjálf. Sérstakur saksóknari segir yfirheyrslurnar hafa gengið vel, þær hafi varpað ljósi á rannsókn málsins.