Jólaverslun líkleg til að slá met

18.12.2017 - 19:42
Kaupmenn segja að fólk leyfi sér meira fyrir þessi jól en síðustu ár og gefi sér meiri tíma til að kaupa jólagjafir og annað sem tilheyri jólunum. Flest bendir til að verslun fyrir þessi jól slái öll met.

Það var jólalegt í miðborginni í dag þó snjóinn vanti og margir í bænum að kaupa jólagjafir því nú er aðeins tæp vika til jóla. Fólk virðist almennt byrja fyrr en síðustu ár að huga að jólainnkaupum. Greiðslukort voru straujuð sem aldrei fyrr í nóvember og einkaneysla eykst nú hraðar en kaupmáttur launa. Við færumst því nær árunum fyrir hrun hvað það varðar. Samkvæmt Hagsjá Landsbankans bendir flest til þess að einkaneyslan sé í meira mæli knúin áfram af skuldsetningu og notkun sparifjár en síðustu misseri. Og það er nánast sama hvar borið er niður, flestir veitinga- og verslunarmenn eru sammála um að fólk verji meira fé í jólagjafir í ár. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV