Jóhannes Gunnarsson látinn

07.01.2018 - 18:54
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Jóhannes Gunnarsson, fyrrverandi formaður Neytendasamtakanna, er látinn, 68 ára að aldri. Hann hóf afskipti af neytendamálum árið 1978 og var formaður Neytendasamtakanna í samtals 30 ár, frá 1984 þar til hann lét af formennsku árið 2016. 

Jóhannes, sem lést í gær, fæddist 3. október 1949. Jóhannes útskrifaðist sem mjólkurfræðingur frá Højby mejeri í Danmörku árið 1971 og vann störf tengd mjólkurframleiðslu þar til hann varð útgáfustjóri hjá Verðlagsstofnun árið 1980. Jóhannes var tvíkvæntur og lætur eftir sig fjögur uppkomin börn.

Meira en hálf ævi Jóhannesar fór í baráttu fyrir hagsmunamálum neytenda. Þegar Jóhannes lét af formennsku í Neytendasamtökunum fyrir einu og hálfu ári rakti hann áhuga sinn á neytendamálum til umkvartana borgfirskra kvenna árið 1978. Þá var Jóhannes mjólkurfræðingur hjá Mjólkursamlagi Borgfirðinga. Konur þar í bæ kvörtuðu undan útrunnum mjólkurvörum og Jóhannes var fenginn til að stýra fundi Neytendasamtakanna þar sem málið var tekið fyrir. Það átti eftir að hafa mikil áhrif á líf Jóhannesar. Hann gekk í stjórn samtakanna í framhaldi af fundarstjórninni, var kosinn varaformaður 1982 og formaður 1984. Jóhannes var upp frá því formaður allt til 2016, að tveimur árum undanskildum, en framkvæmdastjóri um skeið.

Auk starfa sinna fyrir Neytendasamtökin gegndi Jóhannes margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir ýmis félagasamtök og var um skeið ritstjóri Strokkhljóðsins, blaðs Mjólkurfræðingafélags Íslands, og Neytendablaðsins.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV