Jarðstrengir bæti raforkuöryggið tífalt

10.01.2018 - 18:21
Önundarfjörður flateyri
 Mynd: Jóhannes Jónsson
Meira en tífalda má raforkuöryggi á Vestfjörðum með því að leggja línur í jörð. Þetta er meðal niðurstaðna í skýrslu sem Landvernd lét vinna. Samkvæmt skýrslunni er Hvalárvirkjun ekki talin bæta raforkuöryggi Vestfirðinga að ráði.

Unnu skýrslu um raforkuöryggi á Vestfjörðum

Landvernd afhenti Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, iðnaðarráðherra, fyrsta eintak skýrslunnar í dag en stjórn Landverndar kallaði eftir úttekt á því hvernig bæta megi afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum og leitaði því til kanadísks ráðgjafarfyrirtækis á sviði raforkuflutnings, METSCO Energy Solutions. Skýrslan er aðgengileg á heimasíðu Landverndar en í niðurstöðum hennar kemur fram að með því að skipta út loftlínum fyrir jarðstrengi megi bæta raforkuöryggi Vestfirðinga til muna.

Jarðstrengir bæti raforkuöryggið tífallt

Loftlínurnar sem skýrsluhöfundar leggja til að verði skipt út eru Mjólkárlína sem er 132 kílóvolta lína og hluti af Vesturlínu Landsnets, sem og fjórar 66 kólovolta línur á fjörðunum. Tálknafjarðarlína, Bolungarvíkurlína 1, Breiðadalslína og Ísafjarðarlína enda bilanir á þeim tíðar. Vesturlína Landsnets er eina leið raforku Landsnets inn á Vestfirði og útsláttur á henni hefur áhrif á alla Vestfirði þar sem Vestfirðir framleiða ekki næga raforku fyrir eigin notkun. Alls eru línurnar 194 kílómetrar.

Hvalárvirkjun ekki lykill að bættu raforkuöryggi

Forsvarsmenn Hvalárvirkjunar hafa boðað bætt raforkuöryggi með tilkomu Hvalárvirkjunar en Landvernd segir skýrsluna taka af öll tvímæli um að svo sé. Skýrsluhöfundar telja að Hvalárvirkjun ein og sér bæti ekki raforkuöryggið að ráði vegna þess að dræmt raforkuöryggi felist í loftlínum og bilunum á þeim, jarðstrengir geti hins vegar bætt raforkuöryggið tífallt. Framkvæmdatími þess að skipta út loftlínum fyrir jarðstrengi, með leyfisveitingum, geti verið tvo til þrjú ár.

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV