Íslenska nefndin skilar í nóvember

12.10.2017 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þriggja manna nefnd sem rannsakar íslenska hluta plastbarkamálsins skilar af sér 6. nóvember. Saksóknari í Stokkhólmi tilkynnti í morgun að rannsókn á málinu hafi verið hætt í Svíþjóð og að fallið hafi verð frá málarekstri á hendur ítalska skurðlækninum Paolo Macchiarini.

Macchiarini  var grunaður um að hafa verið valdur að dauða fjögurra sjúklinga sem hann græddi í gervibarka úr plasti í Svíþjóð. Saksóknari í Stokkhólmi sagði í morgun að málið hafi verið fellt niður þar sem engar sannanir hafi fundist sem styddu sakargiftir gegn lækninum. Á blaðamannafundi í Stokkhólmi um málið kom fram að engir aðrir séu undir grun í þessu máli. 

Jennie Nordin, sem fór fyrir rannsóknarnefndinni í Svíþjóð sagði á blaðamannafundinum að ef ekki væri hægt að sýna fram á brot í máli Macchiarinis sé varla hægt að gera það í nokkru öðru máli og Helen Hellmark Knutson, ráðherra hærri menntastiga og rannsóknamála sagði að bæta þyrfti sænska löggjöf um rannsóknasvindl. Talið er líklegt að niðurstaðan verði kærð. 

Fyrsti sjúklingurinn sem Macchiarini græddi í plastbarka var Andemariam Beyene eritreumaður sem búsettur var á Íslandi. Læknir hans,Tómas Guðbjartsson, prófessor við Læknadeild HÍ og yfirlæknir á Landspítalanum tók þátt í aðgerðinni með Macchiarini. Einnig er Tómas og annar íslenskur læknir Óskar Einarsson höfundar með Macchiarini á grein sem birt var í vísindatímaritinu Lancet. 

Í umfjöllunum um málið komu fram spurningar um hvort greint hafi verið rétt frá líðan Andemariam og vandæðunum sem komu upp í kjölfar aðgerðarinnar, hvernig staðið hafi á því að hann var sendur út í aðgerðina og hver hafi borið ábyrgð á því. Skipuð var þriggja manna nefnd  til að skoða sérstaklega íslenska hluta málsins, m.a. hvort ákvarðanir íslenskra heilbrigðisstarfsmanna á Landspítalanum hafi verið í samræmi við lög, reglur og verkferla.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hefur niðurstaða sænska saksóknarans ekki áhrif á störf nefndarinnar þar sem hún var ekki að skoða Macchiarini heldur íslenska hluta málsins. Vinna nefndarinnar er langt komin og er gert ráð fyrir því að hún skili af sér 6. nóvember.