Ísland byrjar EM í Króatíu á sigri

12.01.2018 - 18:48
epa06434000 Jesper Nielsen (R) of Sweden in action against Bjorgvin Pall Gustavsson (L) of  Island during the EHF European Men's Handball Championship 2018 group A match between Sweden  and Island in Split, Croatia, 12 January 2018.  EPA-EFE/ANTONIO
 Mynd: EPA-EFE  -  EFE
Strákarnir okkar byrja Evrópumótið í Króatíu af krafti en þeir unnu Svía með tveimur mörkum í dag, lokatölur 26-24. Stórkostleg byrjun íslenska liðsins lagði grunninn að sigrinum en óþarflega margar neglur voru nagaðar undir lok leiks.

Stórkostleg byrjun íslenska liðsins

Íslenska liðið byrjaði leikinn hreint út sagt frábærlega og virtist sem liðið gerði ganga upp. Ólafur Andrés Guðmundsson opnaði markareikning Íslands í Króatíu eftir sendingu Arons Pálmarssonar. 

Íslenska sóknin hélt áfram að malla á meðan vörnin og Björgvin Páll Gústavsson stöðvuðu nær allt sem Svíar hentu í þá. Kristján Andrésson, þjálfari Svía, tók fyrsta leikhlé leiksins eftir aðeins fimm mínútur en þá var Ísland fimm mörkum yfir og Björgvin Páll nýbúinn að vinna víti.

Fyrsta mark Guðjóns Vals Sigurðssonar í leiknum var hans 1800. mark í búningi Íslands og þegar 13 mínútur voru svo liðnar af leiknum þá tók Kristján sitt annað leikhlé en Íslendingar voru sjö mörkum yfir á þessum tímapunkti, staðan 11-4. 

Hægðist á sókninni undir lok fyrri hálfleiks

Sóknarleikur Íslands missti aðeins dampinn í lok fyrri hálfleiks en liðið fór alls níu mínútur án þess að skora mark. Björgvin Páll sá hins vegar til þess að Svíar næðu ekki að minnka muninn að neinu viti en hann var hreint út sagt stórkostlegur í markinu og var búinn að verja 11 skot þegar flautað var til hálfleiks.

Staðan 15-8 Íslandi í vil í hálfleik og það má með sanni segja að fjölmiðlar í Svíþjóð hafi ekki vitað hvaðan á sig stóð veðrið.

Sænska liðið rankaði við sér í síðari hálfleik

Svíar skoruðu fyrstu tvö mörk síðari hálfleiksins áður en íslenska liðið steig á bensíngjöfina og náði tíu marka forystu áður en Kristján Andrésson tók leikhlé, staðan þá 21-11. 

Það virðist sem leikhlé Kristjáns hafi skilað sér en skömmu síðar voru Svíar búnir að minnka muninn niður í sex mörk. Meðal annars skoruðu þeir þrjú mörk á meðan þeir voru einum færri, þar af tvö úr hraðaupphlaupum en það er eitt af þeirra helstu vopnum. 

Staðan 22-16 Íslandi í vil þegar 16 mínútur voru eftir af leiknum og Geir Sveinsson tók leikhlé. Það skilaði hins vegar litlu og Svíar gengu á lagið. Á næstu tíu mínútum leiksins tókst Svíum að minnka muninn enn frekar en þeir skoruðu fjögur mörk gegn aðeins einu íslensku marki. Staðan 23-20 þegar sex mínútur voru eftir af leiknum. 

Menn stigu upp undir lok leiks

Þegar stuðningsmenn Íslands voru farnir að búa sig undir það versta þá stigu íslensku strákarnir upp en leikhléið sem Geir Sveinsson tók þegar forystan var komin niður í þrjú mörk skilaði sínu.

Íslenska liðið svaraði með því að skora, stela boltanum og skora svo aftur. Þar með komst Ísland fimm mörkum yfir og sigurinn þar með í höfn. Svíum tókst reyndar að minnka muninn í aðeins tvö mörk undir lok leiks en það var hreinlega ekki nóg. Lokatölur 26-24. 

Íslenskur sigur í fyrsta leik á Evrópumótsins í Króatíu í mjög svo kaflaskiptum leik þar sem stórkostleg byrjun íslenska liðsins lagði grunninn að mögnuðum sigri.

Tölfræði leikmanna

Ólafur Andrés Guðmundsson var markahæstur í íslenska liðinu með 7 mörk. Þar á eftir komu Arnór Þór Gunnarsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Rúnar Kárason með 5 mörk hver. Aron Pálmarsson skoraði 3 mörk og Janus Smári Daðason skoraði 1 mark.

Í markinu varði Björgvin Páll Gústavsson 17 skot, þar af 2 víti.

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður