ÍBV er bikarmeistari - Sjáðu fagnaðarlætin

12.08.2017 - 19:52
ÍBV varð í dag Borgunarbikarmeistari karla í knattspyrnu en liðið vann FH 1-0 á Laugardalsvelli nú rétt í þessu. ÍBV varð síðast bikarmeistari árið 1998 en þá vann liðið Leiftur 2-0. Liðið komst svo loks alla leið í úrslit í fyrra en þá tapaði liðið 2-0 fyrir Val.

Ef ÍBV hefði tapað í dag þá væri það þriðja liðið á þessari öld til þess að tapa tveimur bikarúrslitaleikjum á tveimur árum. Hin liðin eru Fjölnir og Stjarnan. 

ÍBV var án Hafsteins Briem en hann hefur verið í lykilhlutverki hjá liðinu í sumar og skoraði til að mynda í undanúrslitaleiknum gegn Stjörnunni þar sem ÍBV vann 2-1. 

FH stillti upp sínu sterkasta liði ef frá eru taldir erlendu leikmennirnir sem liðið fékk í félagaskiptaglugganum. Franski hægri bakvörðinn Cédric D'Ulivo var ekki í leikmannahópi liðsins en króatíski vængmaðurinn Matija Dvornekovic var á bekknum en kom ekki við sögu.

Frábærir Eyjamenn í fyrri hálfleik

ÍBV byrjaði leikinn frábærlega og strax á sjöttu mínútu þurfti Gunnar Nielsen, markvörður FH, að taka á honum stóra sínum en hann varði þá vel frá Mikkel Maigaard Jakobsen.

Næstu mínútur voru ÍBV töluvert sterkari aðilinn og stúkan var algjörlega á þeirra bandi. 

Á 27. mínútu fékk Maigaard Jakobsen svo annað færi en nú skaut hann yfir en hér var leikurinn aðeins búinn að jafnast út. Það var svo tíu mínútum síðar sem hinn 35 ára gamli Gunnar Heiðar Þorvaldsson kom ÍBV í 1-0. Skoraði hann með hnénu eftir sendingu frá Kaj Leo í Bartalsstovu en hann er fyrrum leikmaður FH.

Þannig var staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Lok, lok og læs

FH byrjaði síðari hálfleikinn á því að taka Þórarinn Inga Valdimarsson, fyrrum leikmann ÍBV, útaf fyrir Guðmund Karl Guðmundsson. Það virtist sem skiptingin og hálfleiksræða Heimis Guðjónssonar, þjálfara FH, hafi haft tilætluð áhrif en liðið kom mikið mun sterkara út í síðari hálfleikinn.

Á 53. mínútu kom eina skipting ÍBV í leiknum en þá kom hinn ungi Felix Örn Friðriksson inn á fyrir Matt Garner. Stuttu eftir það fékk FH eitt af sínum betri færum en þá skaut Emil Pálsson yfir úr ákjósanlegu færi. Aðeins mínútu síðar varði markvörður ÍBV, Derby Carillo, frábærlega frá Steven Lennon.

Felix Örn skilaði svo sannarlega sínu í leiknum en á 63. mínútu bjargaði hann á línu eftir að Carillo hafði misst hornspyrnu FH-inga og Emil Pálsson náði skoti á markið.

Þegar tólf mínútur voru eftir af leiknum gerði Heimir Guðjónsson tvöfalda skiptingu en þá komu þeir Atli Viðar Björnsson og Bjarni Þór Viðarsson inn á fyrir Kristján Flóka Finnbogason og Bergsvein Ólafsson.

Eftir það sótti FH gífurlega án þess þó að skapa sér nein opin marktækifæri á meðan ÍBV fékk nokkrar frábærar skyndisóknir og hefði geta gert út um leikinn. Allt kom fyrir ekki og hvorugu liðinu tókst að skora. ÍBV er því bikarmeistari árið 2017 og má reikna með Þjóðhátíðarstemmningu í Vestmannaeyjum í kvöld. 

Í spilaranum hér að ofan má sjá fagnaðarlæti Eyjamanna en hér að neðan má sjá viðtöl við þjálfara ÍBV (Kristján Guðmundsson, markaskora leiksins (Gunnar Heiðar) ásamt viðtali við hinn unga Felix Örn.

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður