Íbúar Hawaii varaðir við eldflaugaárás

13.01.2018 - 23:02
A Hawaii Civil Defense Warning Device, which sounds an alert siren during natural disasters, is shown in Honolulu on Wednesday, Nov. 29, 2017. The alert system is tested monthly, but on Friday Hawaii residents will hear a new tone designed to alert people
Almannavarnir á Hawaii prófuðu eldflaugavarnasírenur fyrir mánuði síðan, í fyrsta sinn frá lokum kalda stríðsins. Viðvörunin í dag snerti því marga illa.  Mynd: AP
Íbúar Hawaii vöknuðu upp við vondan draum að morgni laugardags, þegar þeim bárust símboð frá almannavörnum um yfirvofandi eldflaugaárás, þar sem allir voru hvattir til að koma sér í öruggt skjól hið snarasta. Tekið var fram að ekki væri um æfingu að ræða. Boðin bárust í farsíma eyjarskeggja um klukkan átta að morgni að staðartíma. Nær 40 mínútur liðu áður en almannavarnir sendu frá sér boð um að engar eldflaugar stefndu á eyjarnar.

Síðdegis greindi ríkisstjóri Hawaii, David Ige, frá því, að skilaboðin hefðu verið send af misgáningi: Starfsmaður almannavarna hafði einfaldlega „ýtt á vitlausan takka" sagði Ige.

 

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Uppnám og skelfing

Boðin ollu að vonum miklu uppnámi og töluverðri skelfingu meðal íbúa, enda ekki nema mánuður síðan almannavarnir prófuðu viðvörunarsírenur vegna eldflaugaárasa í fyrsta skipti síðan í kalda stríðinu. Ástæðan er eldflaugavæðing Norður-Kóreumanna, sem fullyrða að þeir búi nú yfir eldflaugum sem geti fleygt kjarnorkusprengjum í hvern kima Bandaríkjanna.

Nokkrar sjónvarpsstöðvar birtu viðvörunina og það gerðu líka nokkrir vefmiðlar, auk þess sem boðin fóru sem eldur um sinu á samfélagsmiðlunum. Fjöldi fólks hraðaði sér í skjól; niður í kjallara, í opinber neyðarskýli vegna fellibylja og fleiri staði sem fólk taldi nokkurt skjól í. Skelfingin rann þó fljótt af fólki og lífið komst aftur í fastar skorður eftir að mistökin voru leiðrétt.

Stjórnvöld og yfirstjórn almannavarna á Hawaii rannsaka nú hvernig þetta gat gerst og hvernig hægt er að koma í veg fyrir að það endurtaki sig.   
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV