Íbúafundur í kvöld um Öræfajökul

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson  -  RÚV
Vísindamenn ætla að fara yfir stöðu mála vegna Öræfajökuls á íbúafundi í Hofgarði í Öræfum í kvöld. Á fundinum ætla fulltrúar almannavarna einnig að kynna vinnu vegna rýmingaráætlunar.

Í fyrramálið verður fundur í Freysnesi á vegum almannavarna með fulltrúum fyrirtækja í ferðaþjónustu. 

Tvisvar hefur gosið í Öræfajökli á sögulegum tíma, síðast fyrir 290 árum. Fyrra gosið, 1362, var stærsta þeytigos á sögulegum tíma sem hér hefur orðið. Gjóskan úr gosinu var svo mikil að hún hefði fyllt níu milljónir sundlauga, 50 metra langar, segir á vef Veðurstofunnar. Byggð næst jöklinum lagðist alveg af og segir í Oddverjaannál: „lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall". Þegar sveitin byggðist aftur fékk hún nafnið Öræfi.