Hvað í fjandanum á ég að kjósa?

Nýr kosningaþáttur fyrir ungt fólk var frumsýndur í dag á vef RÚV. Í fyrsta þætti fer Ingileif Friðriksdóttir af stað í þá vegferð að komast að því hvað hún á að kjósa.

Hvað í fjandanum á ég að kjósa? Það er líklega sú spurning sem ansi margir spyrja sig þessa dagana þegar tæplega þrjár vikur eru til kosninga. Vísbendingar eru um að ungt fólk mæti síður á kjörstað en það eldra og mikill meirihluti þess ákveði ekki hvernig það ver atkvæði sínu fyrr en í síðustu vikunni fyrir kosningar. 

Kosningaþættirnir Hvað í fjandanum á ég að kjósa? eru nýlunda hjá RÚV og beinast sérstaklega að ungu fólki. Þættirnir fylgja eftir Ingileif Friðriksdóttur, ungri konu sem hefur ekki hugmynd um hvaða stjórnmálaflokkur fær hennar atkvæði þann 28. október næstkomandi. 

Markmið þáttanna er að kenna ungu fólki góða aðferð til að komast að niðurstöðu um atkvæði sitt fyrir komandi Alþingiskosningar en um leið að kynna framboðin sem standa kjósendum til boða. Í þessum fyrsta þætti fer Ingileif skipulega yfir þau málefni sem skipta hana persónulega máli og hittir foreldra sína til að leita ráða um hvernig er best að komast að niðurstöðu. 

Hægt er að fylgjast með framleiðslu þáttanna á Instagram: ruvgram og Snapchat: ruvsnap

Uppfært 12.10.2017, 15:57

Áður kom fram að þættirnir yrðu sýndir á vef RÚV á mánudögum og fimmtudögum fram að kosningum auk þess sem lokaþáttur þáttaraðarinnar færi í loftið á kjördag. Þessu hefur nú verið breytt og þættirnir verða sýndir jafnt og þétt fram að kosningum. 

Mynd með færslu
Ingileif Friðriksdóttir
Hvað í fjandanum á ég að kjósa?