Horfum til himins, með höfuðið hátt

Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni

Horfum til himins, með höfuðið hátt

Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
22.09.2017 - 13:10.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Nýdönsk er með merkustu dægurtónlistarfyrirbrigðum landsins og gefur hér út plötu, Á plánetunni jörð, sem kemur um margt á óvart – eins og hennar var von og vísa reyndar. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Eitt af uppáhaldsorðunum mínum, orð sem ég brúka mjög oft í tónlistarrýni og fæ aldrei leið á, er „glúrið“. Að vera glúrinn er að vera gáfaður en tekur líka með sér merkinguna að vera útsjónarsamur, dálítið sniðugur, að vera læs á hvað það þarf að gera og hvernig til að knýja fram flotta niðurstöðu. Ef einhver sveit á þennan merkimiða skilið og það skuldlaust þá er það Nýdönsk, ein stæðilegasta popp/rokksveit sem Ísland hefur alið. Fyrstu plötur þeirra eru eitt tilkomumesta „run“ (ég ætla að sletta, bara smá) sem maður hefur upplifað, frá Ekki verður á allt kosið (1989) til og með Hunang (1993). Á þessu tímabili komu út fimm breiðskífur og ein stuttskífa og sköpunargleðin með öllu hömlulaus. Frábær lög og textar, þessi dásamlega yin og yang tilfinning sem fylgir framlínumönnunum tveimur, og áðurnefnd glúrni yfir um og allt í kring, frá plötuumslögum til útsetninga.

Mynd með færslu
 Mynd: nýdönsk  -  Nýdönsk

Teningar

Nýdönsk hefur síðan þá gefið út ný hljóðversverk annað slagið. Síðasta verk t.d., Diskó Berlín, er þéttur pakki, vel til hoggnar poppsmíðar með giska rokkuðum brag. Allt annað er uppi á teningnum hér hins vegar, og er hljómfall og útskurður þessa verks með allt öðrum hætti en áður hefur þekkst í sögu Nýdanskrar. Í stað snaggaralegra, grípandi popplaga er lagt upp með strengi hlöðnum smíðum (sem Haraldur Vignir Sveinbjörnsson vélar um) og flæðið er lárétt, lög streyma áfram í hægð og með epísku öldufalli. Lögin bera nöfn eins og „Dans mannsandans“ og „Tónaflóð“ og er síðara lagið gott dæmi um það sem lýst er þar sem rödd Daníels Ágúst tónar fallega yfir hugljúfum strengjum. Upphafslagið, „Stundum“ minnir þá ekki lítið á Sigur Rós t.a.m.. Nýdönsk eru hins vegar of klárir, náttúrulega, til að láta grípa sig í svona æfingum eingöngu. Hefðbundnari poppsmíðar (ef hægt er að tala um slíkt í tilfelli þessarar hljómsveitar) reigja og höfuðið. Sjá t.d. hið frábæra „Félagslíf plantna“, þar sem er að finna þessar dásamlegu línur: „Ég vild‘ég væri planta/af einföldustu gerð/við gætum vaxið saman/í okkar greinargerð“. Og gleymum heldur ekki sprellinu, sem Nýdanskir lauma inn reglulega og maður sér þá fyrir sér, kíma inn í hljóðverinu. Í laginu „Hversdagsprins“ hefur Björn Jörundur upp raust sína og spyr: „Hvað er ég án mín sjálfs/Ef þú ert ég til hálfs/Er miðja sérhvers manns, hálft þvermálið af hringunum hans?“ Þvílík snilld! Þetta toppar næstum því línu Stuðmanna, „Þú varst sjálfur í eina tíð prakka-ritvél hefur takka.“ Næstum því.  

Stig

„Stöðuvatn sannleikans“ tekur, eins og nafnið gefur til kynna, sig svona mátulega alvarlega en svo eru hér líka vel heppnaðar tilraunir, „Dans mannsandans“ er undarlega uppbyggt og vel áhrifaríkt, einmitt vegna þess. Nýdönsk skorar strax nokkur stig með því að stíga svona rækilega út fyrir boxið. Vel hefði verið hægt að hræra í tíu „venjuleg“ lög en því nenntu menn greinilega ekki í þetta sinnið og er það hrósvert. En auk þess er hér að finna vel samin lög, fagmannlega flutt, vel upp tekin og útsett og þeir bræður, Daníel Ágúst og Björn Jörundur virka á mig sem innblásnir. Ég átti ekki alveg von á þessu, ég viðurkenni það, og hér er komið þægilega aftan að manni. En semsagt, og svo ég hætti öllu glúrnu orðskrúði: framúrskarandi verk!

Tengdar fréttir

Popptónlist

Á plánetunni Jörð

Menningarefni

Með hjartað upp á gátt

Menningarefni

Að rokka af sér hausinn

Popptónlist

Og er þá söngbjörninn unninn