Hörð mótmæli halda áfram í Túnis

11.01.2018 - 02:57
Erlent · Afríka · Túnis · Stjórnmál
A riot policemen stand next to an APC during anti-government protests in Tunis, Tunisia, Wednesday Jan. 10, 2018. Tunisian authorities say 237 people were arrested and dozens of others injured across the country in recent days as violent protests against
Óeirðalögreglan var við öllu búin í höfuðborginni Túnis þegar kvölda tók  Mynd: AP
Hátt á þriðja hundrað manns hafa verið handtekin í hörðum mótmælum og átökum sem brotist hafa út í tengslum við þau í Túnis síðustu daga. Mótmæli blossuðu enn upp í kvöld í minnst fimm borgum, þar á meðal höfuðborginni Túnis. Tugir hafa særst í átökunum, þar af um 50 lögreglumenn. Blásið hefur verið til fjölmennra mótmæla í 20 borgum í Túnis eftir að stjórnvöld kynntu ný fjárlög, sem unnin voru í samráði við stærsta lánardrottinn landsins, Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.

 

Í fjárlögunum er gert ráð fyrir umtalsverðum hækkunum á sköttum og öðrum opinberum gjöldum, sem munu leiða til verðhækkana á bílum, síma- og netnotkun, hótelgistingu og dísilolíu, svo fátt eitt sé nefnt. Mótmælin hörðnuðu nokkuð eftir að mótmælandi lét lífið í einum slíkum í byrjun vikunnar. Lögregla neitar allri ábyrgð á andláti mannsins. 

 

Hörð en fámenn mótmæli

Þótt víða sé mótmælt og harkalega, þá hafa mótmælin ekki verið ýkja fjölmenn enn sem komið er og eru mótmælendur víðast hvar taldir í hundruðum frekar en þúsundum. Fréttastofa Al Jazeera hefur eftir stjórnmálaskýrandanum Med Dhia Hammami að vænta megi enn frekari mótmæla fram að helgi og jafnvel á sunnudeginum, þegar Túnisar minnast þess að sex ár verða liðin frá svokallaðri jasmínu-byltingu í landinu. Í henni var Ben Ali steypt af forsetastóli eftir rúmlega 23 ára valdatíð.

Jasmínu-byltingin var einn angi arabíska vorsins svonefnda, og hefur þróun mála í Túnis löngum verið tekin sem dæmi um hvernig forðast megi blóðug átök í þeim Arabalöndum, sem upplifðu það vor í byrjun áratugarins. Efnahagslífið í Túnis hefur þó ekki dafnað sem skyldi síðustu ár, verðbólga og atvinnuleysi hafa farið vaxandi og óánægja meðal alþýðu fólks að sama skapi. 

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV