Mynd með færslu
17.11.2017 - 11:18.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Flora er fyrsta breiðskífa Jönu og innihaldið gerðarleg og vörpuleg popptónlist með snertifleti við djass, kvikmyndatónlist og fleiri geira. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Jana María Guðmundsdóttir hefur starfað við leikhús og kvikmyndir sem leikkona, söngkona og framleiðandi um árabil. Smjörþefinn af þessu verkefni fengum við í formi stuttskífunnar Master of Light sem út kom fyrir rúmu ári síðan. Tónlistina vinnur hún náið með Stefáni Erni Gunnlaugssyni (Íkorni) og eru þau bæði skrifuð fyrir lögum og textum. Hljóðfæraleikarar hér eru þau Guðmundur Óskar Guðmundsson (bassi), Gróa Valdimarsdóttir (fiðla), Magnús Jóhann Ragnarsson (hljóðgervlar), Magnús Trygvason Eliassen (trommur), Þórdís Gerður Jónsdóttir (selló) og Stefán spilar auk þess á hljómborð og hljóðgervla. Hann upptökustýrði einnig verkinu.

Undirstrikun

Tónlistin er nokk mikilúðleg. Epísk og glæst eiginlega (undirstrikað, t.a.m., með einkar fallegu plötuumslagi). Einfaldast væri að líkja framvindunni að einhverju leyti við Portishead, það er eins og tónspor sígildrar kvikmyndar liggi undir henni og nettar tilvísanir í djassheiminn gera vart við sig. Ásláttur og trommuleikur kallar einnig fram nefndar tripphoppgoðsagnir.

Mynd með færslu
 Mynd: Jana

Tónninn er sleginn strax í upphafi, titillag plötunnar er stórt og dramatískt og flúrað með strengjum. Maður finnur fyrir nálægð Stefáns á plötunni, áferðin ekki ólík því sem heyra má á plötum hans undir nafninu Íkorni. Bakgrunnur Jönu í listinni er þá tilfinnanlegur, hún beitir leikrænum tilþrifum í söngnum og það heyrist að hún er skólagengin í þeirri list. Syngja kann hún en um leið er eins og það sé ákveðin misfella í nálguninni. Í mörgum laganna er eins og tveir hlutir séu í gangi í einu, flauelsbundið kammerpopp sem er gott fyrir sinn hatt en síðan of hátimbruð óperurödd sem passar einhvern veginn ekki. Einhver stirðleiki sem hamlar því að lögin gangi upp. Lagasmíðarnar sem slíkar eru þá um leið misspennandi sem bætir ekki úr skák. Ég nefni t.d. „Altar“ sem dæmi um þetta. Undantekningar eru sannarlega og glúrin uppbrot bjarga sumum lögunum. „Mothertounge“ fer illa af stað en endar með flottu slagverki og í því tilfelli virkar söngtónun Jönu vel. „Pull“ býr yfir flottum bassa og slagverki sömuleiðis og „Glittering Darkness“ er líka vel útsett og enn einu sinni á Magnús trymbill stjörnuleik. Upphafið í „Silver“ er þá snilld.

Skringilegt

Um margt skringileg plata þegar allt er saman tekið. Konseptið er flott og tónlistin, sérstaklega spilamennskan, góð þó að lagasmíðar eigi það til að vera í sjálfvirkum gír. Hins vegar sætir mestri furðu hvað söngur og tónlist ganga illa í takt. Ég ætla að ekki að gera lítið úr greinilegum metnaðinum sem fylgir þessari útgáfu en svona hljómar framreiðslan á innihaldinu í þessum eyrum a.m.k..

Tengdar fréttir

Popptónlist

Flora

Popptónlist

Einlægt og ágengt

Popptónlist

Gáskafullir gaurar, reffilegar rímur

Tónlist

Melankólískt og mikilúðlegt