Hlutabréf í Norwegian ruku upp

05.01.2018 - 22:07
Mynd með færslu
 Mynd: Norwegian
Hlutabréf í norska lággjaldaflugfélaginu Norwegian hækkuðu í dag um rúmlega tuttugu prósent í kauphöllinni í Ósló. Þetta er mesta hækkun á bréfum í félaginu á einum degi til þessa. Skýringarinnar er að leita í því að forsvarsmenn Norwegian tilkynntu í morgun að 2,4 milljónir farþega hefðu flogið með vélum félagsins í nýliðnum desember. Það eru 250 þúsundum fleiri en ferðust með því í desember 2016.

Jafnframt kynnti Bjørn Kjos, forstjóri og aðaleigandi félagsins, í gærkvöld rekstraráætlun þess fyrir árið 2018. Þar er gert ráð fyrir að afköstin vaxi um fjörutíu prósent næstu misserin.

Þrátt fyrir þetta voru nokkrir rekstrarerfiðleikar hjá Norwegian á nýliðnu ári, einkum síðastliðið sumar þegar skortur á flugmönnum varð til þess að áætlun raskaðist. Eigi að síður var sætanýtingin í fyrra svipuð og árið á undan, 87,5 prósent. Bjørn Kjos segist ekki telja að skortur á flugmönnum eigi eftir að valda vandræðum árið 2018.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV