Heróínið leggur Bandaríkin í Afganistan

13.01.2018 - 07:50
Afganistan er fyrsta hreinræktaða dópríki heims. Eftir 16 ára stríðsrekstur sem kostað hefur yfir 100 þúsund milljarða króna sér ekki fyrir endann á átökunum. Þetta er lengsta stríð í sögu Bandaríkjanna og það er því sem næst tapað. Máttugasta herveldi heims hefur tapað fyrir draumsóley eða valmúa, sem notaður er til að rækta heróín. Nær allt heróín heimsins kemur frá Afganistan.

Þetta kemur fram í bók eftir Alfred McCoy sem kemur út í lok mánaðarins en höfundurinn segir frá þessu í langa lestrinum eða The long read í Guardian. Mesta herveldi heims hefur herjað á Afganistan í 16 ár og var með 100 þúsund hermenn þar þegar mest lét. Tvö þúsund og þrjú hundruð bandarískir hermenn hafa fallið og herkostnaðurinn nemur þúsund milljörðum bandaríkjadala eða 100 þúsund milljörðum íslenskra króna. Tíu þúsund milljörðum króna til viðbótar hefur verið varið í uppbyggingarstarf sem aðallega hefur falist í að byggja upp og þjálfa 350 þúsund manna her í landinu. Þrátt fyrir allt þetta hefur ekki tekist að stilla til friðar í einu fátækasta ríki heims. Obama-stjórnin ákvað fyrir rúmu ári að hætta við að kalla herliðið heim og halda átta þúsund manna liði í landinu til frambúðar. 

epa04625812 (FILE) An undated handout picture by the US Air Force shows a MQ-1 Predator unmanned aircraft in flight at an undiclosed location. According to a statement released by the US State Department on 17 February 2015, the US will begin selling
 Mynd: EPA  -  EPA FILE / US AIR FORCE FILE

Hernaðarafskipti Bandaríkjanna í Afganistan hófust í kalda stríðinu. Rauði her Sovétríkjanna hertók Kabúl árið 1979 til að styðja við leppstjórn sína í landinu. Bandaríkjamenn sem voru í sárum eftir fall Saigon fjórum árum fyrr ákváðu að færa stjórnvöldum í Moskvu þeirra eigið Víetnam með því að styðja íslamska uppreisnarmenn með ráðum og dáð. Stuðningur Bandaríkjanna og gegndarlaus ópíumframleiðsla stuðlaði að því að rauði herinn hrökklaðist úr landi áratug síðar. Stríðið hefur í raun staðið í fjóra áratugi. Eftir að rauði herinn fór, tók við blóðug borgarastyrjöld þar sem Talibanar náðu smám saman meiri völdum, og svo innrás Bandaríkjanna í kjölfar árásanna á Bandaríkin ellefta september 2001. Það stríð stendur enn. Meginástæðan er sú að ekki hefur tekist að ná böndum á gríðarlega ópíumframleiðslu með tilheyrandi hagnaði af heróínsölu. Ópíumframleiðslan var 180 tonn árið 2001 en var orðin 3000 tonn ári eftir innrás Bandaríkjanna og rúmlega 8000 tonn árið 2007. Á hverju ári fyllast fjárhirslur Talibana af ópíum- og heróíngróða sem fjármagnar stríðsrekstur og stöðugt flæði nýrra skæruliða. Afganistan er fyrsta hreinræktaða dópríki heims. Ólögleg fíkniefni ráða efnahag landsins algjörlega, sem og því hverjir stjórna landinu, og örlögum erlendra stórvelda sem reyna að skipta sér af málefnum landsins.

epa03273984 An Afghan refugee boy poses for a photograph as he waits to leave with his family for Afghanistan, at United Nations High Commissioner for Refugees (UNHCR) registration center in Chamkani, on the outskirts of Peshawar, Pakistan, 20 June 2012,
 Mynd: EPA

Ópíumframleiðsla tuttugufaldaðist í átökunum í Afganistan á níunda áratugnum og tvöfaldaðist enn í borgarastríðinu á tíunda áratugnum. Ein og hálf milljón manna féll í borgarastríðinu eða 10 prósent landsmanna. Pakistanar lögðust smám saman á sveif með Talibönum sem náðu völdum í höfuðborginni Kabúl árið 1996 og stórum hluta landsins. Þeir hvöttu til ópíumframleiðslu, veittu framleiðslu, sölu og flutningum nauðsynlega vernd og lögðu skatta á allt saman. Á fyrstu stjórnarárum Talibana framleiddi Afganistan 75 prósent af öllu ópíum í heiminum. Árið 2000 var annað þurrkaárið í röð með tilheyrandi hungursneyð um allt land. Talibanar bönnuðu þá alla ópíumframleiðslu í von um alþjóðlegan stuðning. Uppskera á ópíum féll um 94 prósent. Í september árið 2000 fór sendinefnd Talibana til Sameinuðu þjóðanna í von um fjárhagsaðstoð og alþjóðlega viðurkenningu gegn áframhaldandi banni á ópíumframleiðslu í Afganistan. Sameinuðu þjóðirnar hertu þvert á móti viðskiptaþvinganir á landið fyrir að vernda Osama bin Laden. Bandaríkin veittu landinu hins vegar fjárhagslegan stuðning vegna ópíumbannsins.

In this Friday, May 27, 2016 photo, members of a breakaway faction of the Taliban fighters walk during a gathering, in Shindand district of Herat province, Afghanistan. Mullah Abdul Manan Niazi said Sunday, May 29, 2016 he was willing to hold peace talks
 Mynd: AP

Eftir árásirnar ellefta september réðst Bandaríkjaher inn í Afganistan og stjórnskipulag Talibana hrundi eins og spilaborg. Ópíumbannið gegndi þar lykilhlutverki enda hafði landið verið algjörlega háð ópíumframleiðslu og heróínsölu í tvo áratugi. Án ópíums og heróíns var landið á vonarvöl og stjórn Talibana á brauðfótum. Andstaðan var öll í skötulíki. Bandaríkin dældu peningum inn í landið, aðallega til stríðsherra í Norðurbandalaginu svonefnda sem hafði leitt andstöðuna gegn Sovétríkjunum á níunda áratugnum og gegn Talibönum á tíunda áratugnum. Ópíum- og heróínframleiðsla fór strax að blómstra á ný. 63 prósent af landsframleiðslu árið 2003 byggðust á ólöglegum fíkniefnum. Völdin færðust til þeirra sem stýrðu ópíum- og heróínframleiðslunni og Talibanar voru þar frekir til fjárins. Árið 2007 voru 93 prósent heróíns úr heiminum framleidd úr ópíum frá Afganistan. Til að berjast gegn ópíumframleiðslu og völdum Talibana fjölguðu Bandaríkin stöðugt í herliði sínu en allt kom fyrir ekki. Ástandið versnaði stöðugt. Talibanar hafa hert tökin um land allt í krafti ópíumauðæfa en Bandaríkin ýmist leitað útgöngu eða gert örvæntingafullar gagnsóknir.

epa05267413 Afghan farmers extract raw opium at a poppy field in caparhr distract of Nangarhar, Afghanistan, 19 April 2016. Raw opium can be processed into heroin. Afghanistan is listed as the world's largest opium producer.  EPA/GHULAMULLAH HABIBI
 Mynd: EPA

Í rannsókn Sameinuðu þjóðanna kemur fram að Talibanar stjórna ópíum- og heróínframleiðslunni í landinu að mestu leyti. Þeir leggja 10 prósenta skatt á ópíumframleiðsluna, stjórna flestum heróínverksmiðjunum og eru langöflugastir í að tryggja öruggan flutning á hráu ópíum og unnu heróíni út úr Afganistan. Í New York Times segir að í raun sé afar erfitt að gera greinarmun á Talibönum og hefðbundnum eiturlyfjahring. Nýtt uppskerumet var sett síðasta sumar þegar ópíumuppskeran var níu þúsund tonn. Sextíu prósent af tekjum Talibana koma frá ópíumræktinni og Donald Trump ákvað að nú væri kominn tími á endanlegan sigur í stríðinu. Í fyrsta sinn var F-22 orrustuflugvélum og B-52 sprengjuflugvélum beitt í hernaðinum til að eyðileggja 10 heróínverksmiðjur Talibana í Helmand-héraði. Það er þó aðeins dropi í hafið því í landinu eru minnst 500 heróínverksmiðjur.

epaselect epa06104153 Afghan Police stand guard on a highway leading to Shah Wali Khan district, in Kandahar, Afghanistan, 22 July 2017. According to reports around 70 Afghan villagers were kidnapped on 21 July, allegedly by Taliban militants from a
 Mynd: EPA

Niðurstaða Alfreds McCoy er að um ófyrirséða framtíð verði ópíum meginstoðin í efnahag og valdakerfi Afganistan. Draumsóley eða valmúi tryggi Talibönum tögl og hagldir í landinu, með tilheyrandi spillingu innan stjórnkerfisins og verði í raun til þess að Afganistan verði áfram fyrsta hreinræktaða dópríki veraldar.