„Hefur mikil áhrif á andlegu hliðina“

Hæpið
 · 
Samfélagsmiðlar
 · 
Menningarefni

„Hefur mikil áhrif á andlegu hliðina“

Hæpið
 · 
Samfélagsmiðlar
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
01.11.2017 - 13:45.Atli Þór Ægisson.Hæpið
„Mínir verstu dagar tilfinningalega, voru oftast mínar bestu sögur á Snapchat,“ segir samfélagsmiðlastjarnan Aron Már Ólafsson, eða Aronmola. Hann segir að frægðinni fylgi mikið álag, áreiti og vinna.

Aron er einn af fyrstu Íslendingunum sem sló í gegn á samfélagsmiðlinum Snapchat. Hann fór fyrir nokkrum árum meðvitað að vinna í því að verða vinsæll snappari eftir að hafa fylgst með erlendum snöppurum og skynjað eftirspurn eftir slíku efni á Íslandi. Í dag fylgjast tugir þúsunda með Aroni. „Ég komst fljótlega að því að þetta hefur mikil áhrif á andlegu hliðina. Þetta er rosa mikil vinna og áreiti.“

„Ég held að það sem fólk vilji sjá sé eitthvað ferskt. Ekki taka ykkur of alvarlega,“ segir Aron, sem tekur sig svo sannarlega ekki alvarlega. „Ég var oft að vinna með það þegar ég var að skíta, taka það upp og deila með öðrum. […] Einhverja svona hluti sem eru ekki yfirborðskenndir og tilgerðarlegir. Reyna að finna húmorinn í hversdagsleikanum,“ segir Aron.

Hann viðurkennir að Aronmola og Aron Már séu ekki alltaf sami maðurinn. „Það voru oft dagar þar sem mér leið ömurlega, í þunglyndiskasti hérna heima. En þurfti, út af eftirspurninni, að gera einhverja sögu yfir daginn, þurfti bara að keyra í það. Mínir verstu dagar, tilfinningalega, voru oft mínar bestu sögur á Snapchat. Sem er fyndið – eða kaldhæðnislegt,“ segir Aron. „Þetta hjálpaði mér oft líka. Ef mér leið illa, þá var þetta hvatning til að fara að gera eitthvað. Drulla sér út og búa til eitthvað efni. Þetta er tvíeggjað sverð.“

Ótal Íslendingar eru svokallaðir áhrifavaldar. Þeir fá greitt fyrir að miðla upplifun sinni af vörum og þjónustu í bland við sögur af sínu daglega lífi og annað skemmtiefni á Snapchat, Facebook, Twitter, Instagram og bloggsíðum. Fjallað verður um samfélagsmiðlastjörnur á Íslandi og markaðsetningu með áhrifavöldum í Hæpinu á RÚV í kvöld kl. 20. Hér fyrir ofan má sjá brot úr þættinum.

Tengdar fréttir

Tækni og vísindi

Vill greiða öllum fyrir efni á samfélagsmiðlum