Hafi komið fram „af valdníðslu og hlutdrægni“

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Sveitastjórn Hornafjarðar og bæjarstjóri sveitarfélagsins eru gagnrýnd í bréfi sem lögmaður ferðaþjónustufyrirtækisins Ice Lagoon við Jökulsárlón sendi sveitarfélaginu og tekið var fyrir á fundi bæjarráðs í vikunni. Ferðaþjónustufélagið telur sig hafa orðið af tekjum upp á 280 til 400 milljónir.

Ice Lagoon hefur staðið í deilum við Jökulsárlón ehf. og Hornafjörð vegna starfsemi sinnar við lónið undanfarin ár. Félagið selur skoðunarferðir með slöngubátum á Jökulsárlóni og fyrir tveimur árum stefndi það til að mynda sveitarfélaginu fyrir að neita að veita stöðuleyfi fyrir aðstöðukerru og hjólhýsi.

Í bréfinu, sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs í vikunni, segir lögmaður félagsins að málefni Ice Lagoon tengd starfsemi þess við Jökulsárlón hafi komið ítrekað til umfjöllunar og ákvarðana bæjarstjórnar og Hornafjarðar undanfarin ár. Við skoðun á forsögu málsins og fyrirliggjandi gögnum verði vart komist að annarri niðurstöðu en að sveitarfélagið, og eftir atvikum einstakir fulltrúar þess, hafi ekki gætt jafnræðis við úrlausn mála og jafnvel komið fram af valdníðslu og hlutdrægni í ákveðnum tilvikum. 

Ice Lagoon, telji að mögulega hafi einstakir fulltrúar í bæjarstjórn og bæjarráði bakað sér bótaskyldu með framferði sínu við meðferð mála félagsins - þetta séu verulegar fjárhægðir en lauslega megi áætla að félagið hafi orðið af tekjum á bilinu 280 til 400 milljónir króna. Þá hafi það varið á fjórða tug milljóna í málskostnað til lögmanna til að gæta hagsmuna og koma fram fyrir hönd félagsins gagnvart sveitarfélaginu, fulltrúum þess, samkeppnisyfirvöldum og dómstólum. 

Björn Þorri Viktorsson, lögmaður Ice Lagoon, segir í samtali við fréttastofu að þeir séu með þessu bréfi að bjóða sveitarfélaginu að borðinu og kanna möguleika á sátt. „En ef það verður ekki, þá verður það skoðað alvarlega að sækja bætur fyrir dómstólum því það er alveg ljóst að þessi ótrúlega stjórnsýsla bæjarins hefur bakað þessu fyrirtæki tjóni.“ 

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs fékk einnig bréf í vikunni þar sem deilu Ice Lagoon við sveitarfélagið er lýst nokkuð ítarlega en afrit af því bréfi var sent á Björt Ólafsdóttur, umhverfisráðherra. 

Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri í Hornafirði, sagðist í samtali við fréttastofu ekki vilja tjá sig um bréfið að svo stöddu. Málið væri bara í vinnslu hjá lögmanni bæjarins og ekki væri komin nein niðurstaða frá honum. Hann vildi því fyrst sjá hvernig þetta færi.