Hækkanir um áramót

02.01.2018 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ýmsar verðhækkanir tóku gildi um áramótin. Til að mynda hækkaði eldsneyti í verði sem og áfengi og tóbak. Þá hækkaði gjaldskrá Reykjavíkurborgar fyrir margs konar þjónustu.

Áramót eru gjarnan tími breytinga hjá fólki, en þau eru ekki síður tími verðbreytinga. Eldsneytisgjald hækkar um 2% sem þýðir að verð á bensín- og dísellítranum hækkar um liðlega fimm krónur. Eldsneytisgjaldið er krónutölugjald og það er áfengisgjaldið líka og þar verður einnig um 2% hækkun sem og gjald á tóbak. Þetta á einnig við um útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra.

Hvatt til orkuskipta

Kolefnisgjald, sem leggst á eldsneyti, hækkar um 50% og  á að hvetja til orkuskipta í samgöngum. Liður í því er einnig að niðurfelling virðisaukaskatts á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla er framlengd. Hún átti að renna út um áramótin en verður í gildi þar til bílum í hverjum þessara flokka hefur fjölgað í tíu þúsund, en þó ekki lengur en til ársins 2020.

Gjaldskrárbreytingar í borginni

Samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar urðu ýmsar breytingar á gjaldskrám borgarinnar um áramótin. Bílastæðagjöld hækkuðu um allt að 36%. Gjöld, sem barnafólk lítur einkum til, hækka um 2,7%. Átta klukkustunda vistun í leikskóla með fæðisgjaldi hækkar um nærri 600 krónur í 25.320, heitur matur í grunnskólum hækkar um 350 krónur á mánuði í 9.520 og fimm daga vistun á frístundaheimili hækkar um 250 krónur í 13.413. Þá varð 2-3% hækkun á sorphirðugjöldum. Fargjöld með Strætó hækkuðu einnig, stakt gjald um 20 krónur í 460 og mánaðarkort kostar nú 12.300. Liðlega þriggja prósenta hækkun varð á gjaldskrám sundstaða borgarinnar.

Persónuafsláttur hækkar

Ýmsar breytingar urðu einnig á skattkerfinu um áramótin. Persónuafsláttur hækkaði um 1,9% og verða skattleysismörkin nærri 152 þúsund krónur á mánuði þegar tekið hefur verið tillit til  frádráttar 4% iðgjalds í lífeyrissjóð. Fjármagnstekjuskattur hækkaði úr 20% í 22%, svo fátt eitt sé nefnt.

 

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV