Gvatemala fetar í fótspor Bandaríkjanna

25.12.2017 - 04:48
epa06405098 (FILE) - President of Guatemala Jimmy Morales (L) and Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu (R) shake hands as they deliver a statement to the media during their meeting at the Prime Minister's Office in Jerusalem, Israel, 29 November
Jimmy Morales, forseti Gvatemala, og Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.  Mynd: EPA-EFE  -  EPA POOL
Forseti Gvatemala tilkynnti á Facebook í kvöld að ríkið hyggist færa sendiráð sitt í Ísrael frá Tel Aviv til Jerúsalem. Fetar hann þar í fótspor Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.

Jimmy Morales tók ákvörðunina eftir símtal við Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, í dag, að hans sögn. Hann segist hafa fært utanríkisráðuneytinu þessar upplýsingar og það verði nú að grípa til þeirra ráðstafana sem þurfi til þess að flytja sendiráðið.

Aðeins þrír dagar eru síðan 128 ríki Sameinuðu þjóðanna greiddu atkvæði með því að fordæma ákvörðun Bandaríkjaforseta að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Gvatemala var eitt átta ríkja, auk Bandaríkjanna, sem greiddi atkvæði gegn tillögunni. Gvatemala reiðir sig á fjárhagsaðstoð frá Bandaríkjunum í baráttu sinni gegn glæpagengjum í landinu. Fjöldi fólks flýr Gvatemala árlega og reynir að komast til Bandaríkjanna. Bandaríkin veita þeim 750 milljónir dala til þess að bæta aðstæður heima fyrir.

Morales sagði á blaðamannafundi í gærkvöldi að Ísraelar hafi verið bandaþjóð Gvatemala þá sjö áratugi sem hún hefur verið við lýði. Því telji hann það skyldu sína að styðja við Ísraelsstjórn. Þrátt fyrir að ríkin hafi aðeins verið níu sem greiddu atkvæði gegn fordæmingu Sameinuðu þjóðanna séu þau sannfærð um að þetta sé skref í rétta átt.

Ákvörðun Bandaríkjaforseta hefur leitt til daglegra mótmæla á landsvæðum Palestínu. Fjöldi þjóðhöfðingja og stjórnmálaskýrenda segir ákvörðun hans gefa friðarviðræður fyrir botni Miðjarðarhafs enn erfiðari áður. Mahmud Abbas, forseti Palestínu, sagðist ekki lengur hlusta á tillögur Bandaríkjanna um áætlanir að friði í landinu. Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, tók viðurkenningunni hins vegar fagnandi. Jólakveðja hans til heimsbyggðarinnar á Twitter í gær var með yfirskriftinni „Gleðileg jól frá Jerúsalem, höfuðborg Ísraels“.