Guðni segir Gylfa einn af þeim bestu

14.02.2018 - 19:28
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands og fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, fór fögrum orðum um Gylfa Þór Sigurðsson nýverið. Guðni telur Gylfa ekki aðeins afburða knattspyrnumann heldur einnig frábæra fyrirmynd.

Þetta kemur fram í viðtali við Guðna á vefsíðu Everton sem birt var í dag. Guðni, sem spilaði undir stjórn Sam Allardyce [núverandi þjálfara Gylfa hjá Everton] er hann var á mála hjá Bolton Wanderers á sínum tíma telur að dugnaður og metnaður hafi gert Gylfa að þeim frábæra miðjumanni sem hann er í dag.

Mynd með færslu
 Mynd: Sighvatur Jónsson  -  RÚV

Hæfileikar, hlaupageta og dugnaður einkenna Gylfa

„Ég hef mikla trú á Gylfa. Hugarfar hans er frábært og hann er alltaf ákveðinn í að vinna. Ofan á það hefur Gylfi einstaka hæfileika, leggur mjög hart að sér en hann hleypur manna mest í ensku úrvalsdeildinni og gefur alltaf 100%“ sagði Guðni. Hann hélt svo áfram og hrósaði Gylfa enn frekar.

„Helstu styrkleikar Gylfa eru sköpunarhæfni og tækni með knöttinn. Hann vinnur vel á litlu svæði og er með mjög gott auga fyrir sendingum. Svo má ekki gleyma föstum leikatriðum en hann leggur upp og skorar reglulega úr þeim“ sagði Guðni enn frekar um Gylfa.

Guðni þekkir vel til Sam Allardyce

Eins og áður sagði þá lék Guðni undir stjórn Sam Allardyce, þjálfara Gylfa, á sínum tíma og var hann spurður út í kynni sín af Big Sam eins og hann er oft kallaður. 

„Hann legg­ur áherslu á að verjast sem ein liðsheild, en eins og hjá íslenska landsliðinu, þá vill Sam að skapandi leikmenn líkt og Gylfi fái knöttinn eins oft og mögulegt er á sóknarþriðjungi vallarins. Ef leikmenn eru duglegir að hlaupa í kringum Gylfa þá mun hann finna þá og Sam mun eflaust reyna fá Everton liðið til að spila þannig,“ sagði Guðni sem talaði að lokum um vinsældir Gylfa hér á landi.

„Gylfi Þór er mjög vin­sæll á Íslandi. Hann hugsar vel um sig, bæði andlega og líkamlega. Hann er í raun hinn fullkomni íþróttamaður og þar af leiðandi frábær fyrirmynd fyrir börn á Íslandi,“ sagði Guðni Bergs­son að lokum um Gylfa Þór Sig­urðsson.

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður