Guðni Bergs íhugar framboð til formanns KSÍ

22.11.2016 - 18:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Útlit er fyrir spennandi formannskjör hjá KSÍ, Knattspyrnusambandi Íslands á ársþingi sambandsins í febrúar. Skorað hefur verið á Guðna Bergsson fyrrverandi landsliðsfyrirliða í knattspyrnu, úr ýmsum áttum að bjóða sig fram til formanns sambandsins.

Orðrómur hefur verið um það að undanförnu að Guðni Bergsson hyggist bjóða sig fram til formanns KSÍ og þegar þetta var borið undir Guðna í dag sagði hann eftirfarandi við RÚV:

„Margir hafa komið að máli við mig og hvatt mig til þess að bjóða mig fram til formanns KSÍ.. Þetta hefur vissulega komið til tals áður, en að þessu sinni hef ég lofað að íhuga þetta vel og mun gera það á næstunni."

Guðni Bergsson er 51 árs lögmaður, en spilaði á sínum tíma 80 A-landsleiki fyrir Ísland og var fyrirliði landsliðsins í fjögur ár auk þess að spila sem atvinnumaður með Tottenham og Bolton í Englandi og með Val á Íslandi.

Núverandi formaður KSÍ er Geir Þorsteinsson sem hefur gegnt því embætti frá árinu 2007 þegar hann tók við af Eggerti Magnússyni. Geir hafði áður verið framkvæmdastjóri KSÍ í tíu ár á undan. Fari svo að Guðni Bergsson taki þeirri áskorun að bjóða sig fram til formanns, má búast við spennandi formannskosningum á ársþingi KSÍ í febrúar.

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður