Guðjón Valur stefndi ungur á toppinn

11.01.2018 - 10:57
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði handboltalandsliðsins, einsetti sér snemma að komast í röð fremstu handboltamanna heims. Hann var enn í þriðja flokki þegar hann lék æfingaleik með meistaraflokki Gróttu gegn þýska liðinu Flensburg og að leik loknum lýsti hann yfir að hann ætlaði að verða jafngóður og leikmenn þýska stórliðsins. Það gekk eftir.

Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari þjálfaði Guðjón Val í Gróttu til 1997 og lagði með honum grunninn að frábærum árangri. Gauti sagði á Morgunvaktinni frá þrotlausum og úthugsuðum æfingum þeirra þegar Guðjón var enn á unglingsaldri. Síðar kom Gauti að þjálfun Gylfa Þórs Sigurðssonar sem seinna varð einn besti knattspyrnumaður þjóðarinnar.

Guðjón Valur verður í eldlínunni með landsliðinu á Evrópumótinu sem hefst í Króatíu á morgun. Á dögunum komst hann í metabækur; hann er sá handboltamaður sem skorað hefur flest mörk með landsliði í heiminum. Mörkin eru 1.798 í 343 leikjum. Viðbúið er að hann bæti það með hverjum leik Íslands á EM.

Mynd með færslu
Björn Þór Sigbjörnsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi