„Gott að byrja þarna“

Bókmenntir
 · 
Jón Thoroddsen
 · 
Katrín Jakobsdóttir
 · 
Lestin
 · 
Menningarefni

„Gott að byrja þarna“

Bókmenntir
 · 
Jón Thoroddsen
 · 
Katrín Jakobsdóttir
 · 
Lestin
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
14.02.2018 - 13:10.Anna Gyða Sigurgísladóttir.Lestin
„Þegar maður talar um íslenskar ástarsögur er gott að byrja þarna,“ segir Katrín Jakobsdóttir um skáldsögur Jóns Thoroddsens, Pilt og stúlku og Mann og konu. Katrín rýnir í íslenskar ástarsögur í Hannesarholti á fimmtudaginn.

Ástarsögur í Hannesarholti er viðburður sem fer fram 15. febrúar, daginn eftir Valentínusardaginn. Katrín verður þar meðal flytjenda en hún tekur sérstaklega fyrir skáldsögurnar Pilt og stúlku og Mann og konu eftir Jón Thoroddsen, langalangafa sinn. „Þessar tvær sögur Piltur og stúlka og Maður og kona, sem hafa verið kallaðar fyrstu nútíma skáldsögurnar samkvæmt hefðbundinni sögusýn bókmenntanna, þær eru auðvitað ekki bara hefðbundnar ástarsögur heldur eru þetta stórar og miklar skáldsögur en ástin er auðvitað rauði þráðurinn í þeim. Þannig að þegar maður talar um íslenskar ástarsögur er gott að byrja þarna. En vissulega rétt og gaman að vera komin af Jóni,“ segir Katrín.

En hvernig birtist ástin í 19. aldar skáldsögum Jóns Thoroddsens? „Mér finnst þær reyndar eldast ágætlega en ég hef nú mjög gaman af skáldskap frá hvaða tíma sem er. Þannig að þær eru kannski ekki svona ástarsögur sem höfða endilega til nútímalesanda sem er að leita sér að slíku. En þær eru auðvitað bara miklu margbrotnari, það eru miklar persónulýsingar og eru líka gríðarlega góð heimild um þennan tíma í bókmenntunum. Þar sem sveitarsagan er alls ráðandi,“ segir Katrín og bætir við að bækurnar séu til marks um það að vettvangur bókmennta á Íslandi hafi þróast með öðrum hætti en annars staðra í Evrópu. „Hann klofnaði ekki í hreinar afþreyingabókmenntir og hins vegar alvarlegan skáldskap. Heldur má segja að ekki hafi verið hrein lína í íslenskri skáldsagnagerð, ólíkt þróuninni annars staðar í Evrópu.“  

Þekkir betur til glæpasagna en ástarsagna 

Katrín segist ekki geta talist sérfræðingur í íslenskum ástarsögum. „Þetta hefur meira verið bara til gamans gert, að skoða þennan geira sem hefur aldrei fengið að njóta mikils sannmælis í íslenskri bókmenntaumræðu nema kannski á síðustu árum þegar sögur Guðrúnar frá Lundi hlutu ákveðna uppreisn æru. Og þær eru auðvitað heldur ekki bara hefðbundnar ástarsögur, þær eru miklu stærri skáldsögur. Alveg eins og sögur Jóns fyrir þær, þá eru sögur Guðrúnar sögur, sem mér finnst að mörgu leyti vera margbrotnar skáldsögur í anda hinna gömlu frönsku skáldsagna þar sem eru mjög margbrotnar persónur og fengist er við margt annað en ást, þó að þær séu stundum flokkaðar sem ástarsögur.“

Katrín segir ástarsögur ekki beint teljast til merkilegs skáldsskapar hér á landi þrátt fyrir mikinn lestur. „Við erum enn þá með heilmikla útgáfu á þýddum ástarsögum sem koma hér út með reglulegu millibili. Þannig að þetta er enn þá lesið þó að þetta fái lítinn sess í bókmenntaumræðunni,“ segir hún. 

Gjörbreytt neyslumenning

Er Katrínu eitthvað menningarefni sérstaklega hugleikið um þessar mundir?„Ég náttúrulega leita alltaf í skáldskapinn en ég velti talsvert fyrir mér þróun afþreyingarmenningarinnar í samfélaginu. Og af því að ég nefni það einmitt að ástarsögurnar séu ennþá lesnar þó þær séu ekki mikið til umræðu þá höfum við auðvitað séð þær birtast í öðru formi sem við getum kallað þetta raunveruleikasjónvarp sem er auðvitað gríðarlega vinsælt,“ segir Katrín og nefnir þætti á borð við The Bachelor og Ástarfleyið sem snúast um að finna ástina og standast freistingar. „Ég hef alltaf mikinn áhuga á því að sjá í hvaða farveg afþreyingarmenningin leitar. Í gegnum afþreyingarmenninguna sér maður svo margar vísbendingar um samfélagið.“

Ég spyr Katrínu, af menningunni að dæma, hvert henni sýnist samfélagið vera að fara um þessar mundir. „Já, þegar stórt er spurt þá er oft fátt um svör og alltaf auðveldara að vera vitur eftir á en ég meina við erum auðvitað bara með gerbreytingu á neyslu á afþreyingarmenningu. Og mjög fjarri þeim veruleika sem ég og mín kynslóð elst upp við,“ segir Katrín.