Glannalegt að gefa út ljóðabók

Bókmenntir
 · 
Dagur Hjartarson
 · 
Heilaskurðaðgerðin
 · 
Ljóð
 · 
Ljóðlist
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá

Glannalegt að gefa út ljóðabók

Bókmenntir
 · 
Dagur Hjartarson
 · 
Heilaskurðaðgerðin
 · 
Ljóð
 · 
Ljóðlist
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
12.10.2017 - 11:27.Guðni Tómasson.Víðsjá
„Ég veit ekki hvort það sé alltaf mikill styrkleiki þegar ljóðabækur hafa söguþráð en þessi hefur hann því miður,“ segir skáldið Dagur Hjartarson sem nú hefur sent frá sér ljóðabókina Heilaskurðaðgerðin. Bókin byggir á persónulegri reynslu en Dagur var gestur í Víðsjá á Rás 1. Hann las úr bókinni og viðtalið má heyra hér fyrir ofan.

Ég og þú

„Bókin fjallar um par þar sem annar aðilinn greinist með heilaæxli og ferðalag í gegnum þá reynslu. Titilinn er í raun stórkostlegur„spoiler.“  Þannig að þetta eru ástarljóð og ljóð um líf í ljósi og skugga þessarar heilaskurðaðgerðar. Þarna er ljóðmælandinn sem er „ég“ og stúlkan sem er „þú“,“ segir Dagur Hjartarson.

Dagur segir nýju bókina í raun vera hina hliðina á peningi sem hann kastaði upp með fyrstu ljoðabók sinni sem heitir Þar sem vindarnir hvílast - og fleiri einlæg ljóð. Fyrir þá bók fékk Dagur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2012. „Þetta er í raun hin hliðin á þeirri bók, nema bara fimm árum síðar,“ segir Dagur sem byggir bækurnar á persónulegri reynslu um glímu við veikindi og bata. „Ég er að vinna áfram í þeirri rispu. Skáld segja oft að þau hafi þroskast og auðvitað gerir maður það og þess vegna vinn ég með þetta áfram.“

Dagur Hjartarson í Víðsjárviðtali.
 Mynd: Dagur Gunnarsson
Dagur Hjartarson hefur nú sent frá sér sína fimmtu bók.

Göfull efniviður

„Efniviðurinn klassíski: ástin, lífið og dauðinn, er gjöfull og dugir manni lengi. Ég er ekki búinn að tæma þettta. Núna er ég kannski að loka einhverju og get sagt að núna sé ég búinn með fyrstu bókina mína.

Þeir sem helga sig skáldskap, hvort sem það eru ljóð eða skáldsögur, eru dæmdir til að skrifa sömu bókina ansi oft sem er auðvitað áhugavert. Ég hef til dæmis verið að lesa ljóðin hans Sigurðar Pálssonar heitins, sem var kennari minn, og þá sér maður hvernig Sigurði, þessu stórkostlega skáldi, duga ekki of mörg yrkisefni í afar gjöfult höfundarverk.“

Hér er eitt ljóð úr Heilaskurðaðgerðinni eftir Dag Hjartarson:

Klaufavillan

Æxlið var bara lítill punktur

á vitlausum stað

Í setningu.

Lífsreynsla í spíral

Dagur telur að lífsreynsla sem reyni á í lífinu komi ekki og fari á einföldum tímaási, heldur sé hægt að sjá hana fyrir sér í eins konar tímaspíral þar sem maður kemur aftur og aftur að reynslunni. Ljóðið nái vel utan um þessa tilfinningu, segir Dagur. „Ljóðin skilja að ákveðin lífreynsla fylgir manni í þessum spíral.“ Dagur sem er á því að ljóð nýtist vel til að hjálpa manni í gegnum erfiða reynslu.

Mynd með færslu
 Mynd: Einka: Dagur Hjartarson  -  einka

Þrjár höfuðáttir

Nú hefur Dagur sent frá sér ljóð, smásagnasafn og skáldsöguna Síðustu ástarjátninguna. Hann segir það ólíkt að senda frá sér bækur út í þessar höfuðáttir skáldskaparanis.

„Mér finnst miklu skrýtnara að gefa út ljóðabók. Að senda skáldsögu frá sér er eins og senda stórt skip út í brotsjó, maður hefur ekki svo miklar áhyggjur. En að gefa út ljóðabók er dálítið glannalegt. Ljóðin eiga hluta í mann og það er alltaf eitthvað sem segir manni að þessi ljóð eigi ekki erindi við nokkurn mann, en svo er það hitt að einhvern veginn maður að halda áfram með þetta og líf sitt.“

Viðtalið við Dag um nýju ljóðabókina, Heilaskurðaðgerðina, má heyra í heild hér að ofan. Dagur les þrjú ljóð úr bókinni en tónlistin í innslaginu er eftir John Surman.