Geta átt bótarétt vegna tafa

16.12.2017 - 19:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Enn er ósamið í kjaradeilu flugvirkja Icelandair og skellur verkfall á klukkan sex í fyrramálið hafi ekki samist fyrir þann tíma. Upplýsingafulltrúi Samgöngustofu segir farþega eiga rétt á bótum nema orsökin sé óviðráðanleg, og verkfall sem boðað er með fyrirvara teljist ekki óviðráðanleg orsök.

Samningafundur sem haldinn var í kjaradeilunni í gær bar ekki árangur. Að sögn formanns samninganefndar flugvirkja var samkomulag ekki í sjónmáli eftir þann fund. Sest var á ný á fund í dag og á að reyna til þrautar að ná samningum áður en verkfallið skellur á klukkan sex í fyrramálið.

Margir sem eiga bókað flug á morgun hafa haft áhyggjur af stöðu sinni og réttindum ef flug fellur niður vegna verkfallsins. Samgöngustofa hefur orðið vör við það.

„Fólk hefur haft mjög mikið samband við Samgöngustofu og hefur áhyggjur af því að flugmiðinn sé kannski tapaður,“ segir Þórhildur Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu. „En ef fólk hefur keypt miða af flugrekandanum á það rétt á að fá hann annaðhvort endurgreiddan eða tilhögun ferðalagsins með öðrum hætti í samráði við flugrekandann.“

Flugrekanda sé skylt að veita fólki skriflegar upplýsingar og máltíðir í samræmi við töfina sem það verður fyrir. Þá eigi flugfélag að greiða næturgistingu ef hennar er þörf. Farþegar fá hinsvegar ekki bætur ef tafirnar teljast viðráðanlegar. Og það þarf að túlka. „Verkföll sem hefur verið boðað til með einhverjum fyrirvara, eins og til dæmis tvær vikur, telst yfirleitt ekki til óviðráðanlegra ástæðna,“ segir Þórhildur.

Flugvirkjaverkfallið var boðað með níu daga fyrirvara og því er líklegt að bótaréttur sé þá fyrir hendi. Öðru máli gegni ef veðri eða lokun flugvalla sé um að kenna. Þá er bent á að flugfélagið ber aðeins ábyrgð á töpuðu tengiflugi ef allir leggir eru bókaðir í gegnum það flugfélag - ekki ef ferðirnar eru bókaðar sitt í hverju lagi.

Farþegar eru hvattir til að fylgjast vel með áætlunum. Icelandair láti vita ef flugi verður aflýst. Skoðanir flugvirkja gilda hins vegar að jafnaði í tvo sólarhringa, nema eitthvað komi upp á, og því er ekki víst að áhrifin verði svo mikil af verkfallinu fyrst í stað. Þau gætu hins vegar aukist eftir einn til tvo sólarhringa.