Gervigrasvellir endurnýjaðir

23.06.2016 - 10:30
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg
Borgarstjórn hefur ákveðið að þrír gervigrasvellir verði endurnýjaðir í Reykjavík í sumar. Vellirnir eru hjá íþróttafélögunum Fylki, KR og Víkingi. Í tilkynningu frá borginni kemur fram að lagt verður nýtt gervigras á vellina með nýrri tegund af gúmmíkurli.

Framkvæmdir eru þegar langt komnar hjá Víkingi og er áætlað að byrjað verði á hinum völlunum í sumar.  

Áætlaður kostnaður við þessar framkvæmdir á þessum þremur völlum er 180 milljónir króna. Þegar framkvæmdunum lýkur hafa fimm gervigrasvellir verið endurnýjaðir í borginni auk gervigrasvallarins í Egilshöll og eru þeir því ekki með svokölluðu dekkjakurli lengur.

Í tilkynningunni kemur fram að áfram verði unnið að endurnýjun gervigrasvalla á næsta ári.  

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV