Gera útivistarsvæði ofan Hrafnagils

11.01.2018 - 14:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Björgvin Kolbeinsson
Eyjafjarðarsveit keypti nýverið skóglendi ofan Hrafnagilshverfis í Eyjafirði. Til stendur að nýta svæðið betur til útivistar og ætlar sveitarfélagið að ráðast í framkvæmdir þar á næstunni. Efnt hefur verið til hugmyndasamkeppni um nýtingu skógarins og hafa fjölmargar hugmyndir borist.

Sveitarstjórn vill setja allt að fimm milljónir í verkið

Áður tilheyrði aðeins lítill hluti svæðisins sveitarfélaginu, en þar er að finna Aldísarlund, sem um árabil hefur nýst skólasamfélaginu á Hrafnagili vel, er fram kemur í tilkynningu frá Eyjafjarðarsveit.

„Með stækkun þessa svæðis, ofan Aldísarlundar, opnast ýmsir möguleikar til útivistar, kennslu og leikja bæði fyrir skólasamfélagið og íbúa. Sveitarstjórn hefur áhuga á að ráðast í framkvæmdir á svæðinu sem væru til þess fallnar að auka samveru og útivist íbúanna.”

Sveitarstjórn leggur til að lagðar verði þrjár til fimm milljónir króna til verksins á þessu ári, vinnuhópur stofnaður utan um framkvæmdina og verkefnið kynnt. 

Berjaland, útivistarsvæði, göngustígar og grillhús

Meðal þeirra hugmynda sem bárust voru: 

Berjaland og berjaskógur: Lagt er til að skóglendið nýtist sem berjaland fyrir íbúa þorpsins og nærsveitunga. Grisjaður bjartur skógur með hindberjum, rifs- og sólberjum, hrúta- og laxaberjum, jarðarberjum og fleiri tegundum sem njóta skjóls skógarins. Gjöfult berjaland sem einnig mætti nýta við kennslu. 

Grillaðstaða og grillhús: Yfirbyggt hús, svipað fyrirkomulag og í Kjarnaskógi. 

Afþreying sem krefst hreyfingar: Renniróla, hjólabraut, fjallahjólabraut, fjallaskíðabraut, frisbígolfvöllur og æfingatæki. 

Malbikaður stígur og göngubrautir: Leggja ætti malbikaðan, helst upphitaðan, stíg upp í skóginn frá bílastæðinu við Laugarborg. Hanna stígakerfi í skóginum sem miðast við að þar séu stígar fyrir fólk á öllum aldri, bæði mjög greiðfærir stígar og líka spennandi ævintýrastígar um skóginn.

Þá hefur Hrafnagilsskóli haft aðgang að svæðinu í rúman áratug og lagt ýmislegt til þar. Skólinn leggur til að svæðið verði áfram að fullu opið honum til að sinna útikennslu, en einnig verði það notað sem útivistarsvæði fyrir almenning. 

Mynd með færslu
 Mynd: Eyjafjarðarsveit
Mynd með færslu
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV