Gáskafullir gaurar, reffilegar rímur

JóiPé og Króli
 · 
Poppland
 · 
Popptónlist
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni

Gáskafullir gaurar, reffilegar rímur

JóiPé og Króli
 · 
Poppland
 · 
Popptónlist
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
02.11.2017 - 15:42.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
JóiPé og Króli komu eins og stormsveipur inn í íslenska rappið með plötu sinni Gerviglingur. En er einhver vigt á bakvið þetta fárviðri?  Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Ég labbaði fram á kollega minn í útvarpinu, Atla Má, þar sem hann var að renna nýju íslensku hipphoppi. „Svo er það þetta, JóiPé og Króli,“ sagði hann og glotti. Samt eins og hann væri ekki alveg viss. „Hvernig er þetta?,“ spurði ég. „Þetta er fínt,“ svaraði hann, smá hikandi. En varð svo öruggari. „Það er einhver andi þarna sem ekki er hægt að útskýra. Einhver sjarmi. Líka skemmtilega fjölbreytt. Það er gítar í einu laginu ...“

Spjall

Við héldum áfram að spjalla og vorum sammála um að kosturinn við að vera ungur og ekki enn farinn að læra inn á óskráð boð og bönn væri að þá fengir þú svona hluti í hendurnar. Græskulausa tónlist, sem fer í hvaða þær áttir sem henta dagsformi höfundanna. Sannfærður var ég, en samt ekki búinn að heyra nótu af tónlist ennþá. En er búinn að marinera mig þessa vikuna og ég skil lætin í kringum þetta. Lykillinn að farsældinni er tiltölulega einfaldur, eitthvað sem hefur reynst tónlistarmönnum vel í gegnum tíðina. Tónlistin hérna er einlæg og ástríðufull, skemmtileg og ber með sér heilnæmt „Hei, gerum þetta bara!“ viðhorf. Hér er alvöru „banger“, B.O.B.A., sem fleytti þeim félögum langt en platan er engan veginn bundin á þannig klafir. Hún fer rólega af stað, draf-rapp að Atlanta sið umlykur titillagið sem opnar plötuna og áfram heldur hún á svipuðum valíumhraða með „Taktlaus“. „Sagan af okkur“ er ballaða, textinn úr veruleika unglingsins: „Ég veit ég er búinn að fokk‘upp/Þú hringir ekki lengur“. Lag sem er bæði vel forritað og flott. Í „Oh Shit“ mæta þeir félagar á svæðið eins og Chuck D og Flavor Flav (Public Enemy), Króli með háu röddina og Jói með djúpu röddina. Flott flæði og falleg birtingarmynd á samstarfi og ekki síst vináttu þeirra bræðra. „Stælar“ er hart, „Labba inn“ hratt og lokalagið, „Draumórar“ draumkennt, eins og nafnið gefur til  kynna. Allt í gangi og allt gengur þetta upp.

Táknræn

Platan er stutt, var „fleygt“ inn á netmiðla og að mörgu leyti táknræn fyrir hvernig staðið er að málum í dag, þar sem hlutirnir gerast hratt og yfirlegan oft lítil. Í þessu tilfelli er það kostur, Gerviglingur er sönn og náttúruleg, plata sem er bara gerð einu sinni.