„Gæti haft veruleg áhrif á deildirnar"

15.11.2017 - 22:47
Körfuknattleikssamband Íslands er talið hafa brotið gegn EES-samningnum þegar reglugerð þess efnis að aðeins einn erlendur leikmaður mætti vera inn á vellinum hverju sinni. Þetta er niðurstaða rökstudds álits sem Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, sendi íslenskum stjórnvöldum í dag. KKÍ hefur nú brugðist við þessu.

„Viðbrögðin frá okkur eru þau að við höfðum ekki hugmynd um þennan úrskurð,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ í viðtali við íþróttadeild RÚV.

Hannes segir jafnframt að stjórn KKÍ hafi ákveðið að breyta frekar reglugerðinni en að standa í þrasi og tilheyrandi lögfræðikostnaði á komandi árum.

„Stjórn KKÍ ákvað í síðustu viku að breyta reglugerðinni og það er ljóst mál að við getum haldið þessu máli áfram næstu árin ef við viljum og hent þessu fram og til baka með greinargerðum, rökstuðningum og aftur á bak og áfram.“

„Með hagsmuni körfuboltahreyfingarinnar að leiðarljósi, sem og íslenska ríkisins, þá teljum við að það sé langbest að breyta reglugerðinni og að á næsta keppnistímabili þá munu fara eftir þeim reglum sem eru um frjálst flæði vinnuafls innan Evrópu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski  -  RÚV

Þannig að þið eruð í raun að fallist á allt sem fram kemur hjá EFTA?

„Nei við föllumst alls ekki á allt sem fram kemur hjá þeim. Aftur á móti gætum við farið með þetta fyrir dómstóla og haldið okkar rökum sem þar eru, þannig við föllumst engan veginn á það. Aftur á móti er ljóst að það eru skiptar skoðanir um þetta og við, það fáliðaða fólk sem starfar í kringum KKÍ og hjá íslenska ríkinu, höfum annað og betra við tíma okkar að gera en að standa í bréfaskriftum endalaust við fólk í Brussel eða annarsstaðar í Evrópu.“

Til að fá frið í málið telur Hannes að það sé best að stjórn KKÍ taki þá ákvörðun að frá og með næsta keppnistímabili (2018-2019) verði regluverkinu breytt þannig að lið geti spilað fleiri en einum erlendum leikmanni að hverju sinni. Hann tekur þó fram að sambandið hafi ekki brotið neinar reglur en hann vonist að nú sé málinu lokið.

Breytingin gæti haft gífurleg áhrif á deildir hérlendis en á næsta keppnistímabili gætu lið stillt upp liði með fjórum Dönum og einum Bandaríkjamanni til að mynda.

Viðtalið við Hannes í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.

Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski  -  RÚV
Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður