Fundalota stjórnvalda og vinnumarkaðar

10.01.2018 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar funda með aðilum vinnumarkaðarins í dag, en stjórnvöld hafa sagt að eitt af stærstu verkefnum ríkisstjórnarinnar sé hvernig hægt verði að ná sátt á vinnumarkaði.

 

Fulltrúar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks funduðu með aðilum vinnumarkaðarins þegar í nóvember á meðan stjórnarmyndunarviðræður stóðu yfir. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í fréttum RÚV á gamlársdag þegar hún kom til ríkisráðsfundar að stóra verkefnið nú séu samningaviðræður  framundan á vinnumarkaði og ætlunin sé að nýta janúarmánuð til að funda um það. Ákveðin hefur verið fundalota stjórnvalda með Alþýðusambandinu, BSRB, Kennarasambandinu og BHM.

Í næsta mánuði þarf ASÍ að ákveða hvort nýta á uppsagnarákvæði samninga. Kergja er á vinnumarkaði eftir síðustu úrskurði Kjararáðs. Á móti kemur að fyrsta maí á að koma þriggja prósenta launahækkun hjá þeim sem heyra undir ASÍ og fyrsta júlí á mótframlag vinnuveitenda í lífeyrissjóð að hækka um eitt og hálft prósent, en það er liður í jöfnun lífeyrisréttinda á vinnumarkaði. Samningar félaga innan ASÍ renna í árslok, en sautján félög innan BHM hafa verið með lausa samninga frá fyrsta september síðastliðnum. Þá eru bæði grunn- og framhaldsskólakennarar með lausa samninga. Samningar BSRB renna almennt ekki út fyrr en í lok mars á næsta ári.

Sex mál eru nú til meðferðar hjá ríkissáttasemjara. Það eru kjarasamningar framhaldsskólakennara, náttúrufræðinga, flugmanna hjá Icelandair, flugvirkja hjá Air Atlanta og flugfreyja hjá Primera Nordic Air. Þessu til viðbótar er svo mál skipstjórnarmanna og vélstjóra og málmtæknimanna sem vísað var til ríkissáttasemjara í byrjun mai árið 2016.
 

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV