Fujimori biðst fyrirgefningar

26.12.2017 - 15:55
epaselect epa06405796 Protesters march during a demonstration against the pardon to ex-president Alberto Fujimori, in Lima, Peru, 25 December 2017. Banner reading 'Danger! Fujimori never again.' Thousands of people demonstrated in the main
 Mynd: EPA-EFE  -  EFE
Alberto Fujimori, fyrrverandi forseti Perú, bað þjóð sína fyrirgefningar í dag. Þeirri ákvörðun núverandi forseta landsins um að náða Fujimori hefur verið harðlega mótmælt undanfarna daga.

Pedro Kuczynski, forseti Perú, náðaði Fujimori á aðfangadag af mannúðarástæðum vegna veikinda hans. Forsetinn  sagðist í yfirlýsingu ekki geta látið Fujimori deyja í fangelsi. 

Fujimori sem hafði afplánað tólf ár af 25 ára dómi fyrir mannréttindabrot og spillingu var fluttur á sjúkrahús í liðinni viku. Skiptar skoðanir hafa verið á ákvörðun Kuczynski. Fjöldi stuðningsmanna hans hafa haldið til fyrir utan sjúkrahúsið til að sýna stuðning sinn og þúsundir hafa mótmælt náðun hans í höfuðborginni Lima. AFP fréttastofan greinir frá því að lögreglan hafi skotið táragasi í gær til að dreifa mótmælendum og koma í veg fyrir að þeir söfnuðust saman við sjúkrahúsið sem Fujimori er á. 

Fujimori baðst í dag fyrirgefningar. Hann sagðist meðvitaður um að ákvörðun stjórnvalda nyti stuðnings hjá sumum en að hann viðurkenndi að hann hefði valdið öðrum samlöndum sínum vonbrigðum og bað þá fyrirgefningar af öllu hjarta. 

Sakaður um að hafa samið til að vernda sjálfan sig

Kuczynski er sjálfur ekki ótengdur spillingarmálum og slapp naumlega undan því að verða sjálfur kærður fyrir embættisbrot í síðustu viku. Keiko Fujimori, dóttir forsetans fyrrverandi, er formaður íhaldsflokksins sem hefur meirihluta í þinginu í Perú. Á fimmtudag reyndi hún að fá vantraust samþykkt á Kuczynski. Það tókst hins vegar ekki, meðal annars vegna þess að bróðir hennar Kenji Fujimori vann gegn vantrauststillögunni, og þótti það vísbending um að Kuczynski hefði samið við stuðningsmenn Fujimori um að hann yrði náðaður í staðinn.

Kuczynski segist skilja reiðina. Ákvörðunin hafi verið bæði flókin og erfið en að þetta hafi verið hans ákvörðun. Hann geti ekki verið aðeins forseti þeirra sem kusu hann heldur verði hann að vera forseti allra sem kusu hann. 

Mótmælendur sem Reuters fréttastofan ræddi við segja að náðunin hafi verið ólögmæt og að heilsufarsástæðurnar sem gefnar hafi verið fyrir henni hafi ekki átt við rök að styðjast. Tveir þingmenn stjórnmálaflokks Kuczynskis hafa sagt af sér embætti til að mótmæla náðun Fujimori.  Þá skrifaði framkvæmdastjóri Mannréttindavaktarinnar í ríkjum Ameríku á Twitter að hann harmi að Fujimori hafi verið náðaður. Það muni ekki gleymast að hann hafi fengið frelsi gegn því að Kuczynski fengi að sitja áfram í embætti. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV