Foster slítur viðræðum á Norður Írlandi

14.02.2018 - 19:03
Enn ein tilraunin til að endurreisa heimastjórn á Norður-Írlandi er farin út um þúfur. Arlene Foster, leiðtogi Lýðræðislega sambandsflokksins, DUP, tilkynnti á fimmta tímanum að engar líkur væru á að viðræður bæru árangur. Rúmt ár er frá því að Foster hrökklaðist frá völdum er hinn stjórnarflokkurinn, Sinn Fein, sleit samstarfinu. Martin McGuinnes, þáverandi leiðtogi flokksins, sagði við hroki, yfirgangur og tillitsleysi DUP í stjórnarsamstarfinu gerði frekara samstarf ómögulegt.

Yfirlýsingin kom á óvart

Yfirlýsing Arlene Foster nú á fimmta tímanum kom öllum að óvörum. Hún sagði að ómögulegt væri að ná samkomulagi um heimastjórn. Ekki var betur vitað en þokkalegur árangur hefði náðst í viðræðum um að endurreisa heimastjórn Norður-Írlands. Forsætisráðherrar Bretlands og Írska lýðveldisins gerðu sér ferð til Belfast á mánudag til að reyna að höggva á hnútinn og reka á eftir heimamönnum. Leo Varadkar, taoseach eða forsætisráðherra Írska lýðveldisins, sagði eftir fundinn að hægt væri að leysa ágreining flokkanna og vonir stæðu til að ný stjórn yrði mynduð í vikunni. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, tók undir orð Varadkars.

Trúin ræður flokkshollustu

Trúarbrögð leika lykilhlutverk í stjórnmálum á Norður-Írlandi. Stærstu flokkarnir sækja fylgi sitt annað hvort til mótmælenda eða kaþólikka. Lýðræðislegi sambandsflokkurinn, Democratic Unionist Party, DUP, er flokkur mótmælenda. Þeir vilja að Norður-Írland verði áfram hluti af Bretlandi, United Kingdom og eru um margt mjög íhaldssamir. Sinn Fein er á hinn bóginn flokkur kaþólikka, lýðveldissinna sem eru hallir undir sameiningu við Írska lýðveldið og eiga margt sameiginlegt með flokkum á vinstri væng stjórnmála.

Stærsti flokkurinn fær stjórnarforystu 

Stjórnskipan heimastjórnar Norður-Írlands, sem komið var á með friðarsamningum 1998, gerir ráð fyrir samstjórn stærstu flokkanna og að leiðtogi stærsta flokks mótmælenda fái embætti fyrsta ráðherra, en kaþólikkar staðgengil hans. Arlene Foster og Martin McGuinnes, leiðtogar DUP og Sinn Fein, gegndu þessum embættum í síðustu stjórn. McGuinnes er nú látinn og Michelle O'Neill tekin við leiðtogaembætti Sinn Fein á Norður-Írlandi, en Arlene Foster er enn leiðtogi DUP.

„Hroki, yfirgangur og tillitsleysi"

Rúmt ár er frá því að stjórn undir forsæti Foster hrökklaðist frá völdum. Sinn Fein sleit samstarfinu og bar við hroka, yfirgangi og tillitsleysi DUP í stjórnarsamstarfinu. Efnt var til kosninga í mars á síðasta ári þar sem Sinn Fein vann umtalsverðan sigur, en hvorki gekk né rak í þreifingum um nýja stjórn. Kosningabaráttan var óvægin og ummæli Arlene Foster, þar sem hún líkti andstæðingum sínum við krókódíla sem vildu meir ef þeim væri gefið að éta, áttu sinn þátt í að eitra andrúmsloftið. Það var því ef til vill ekki furða að stjórnarmyndun mistækist eftir kosningarnar og svo aftur þegar reynt var í fyrrasumar.

Staða írsku mikið deilumál

Margt skilur flokkana að annað en afstaðan til sambandsins við Bretland til dæmis vill DUP alls ekki leyfa hjónabönd samkynhneigðra. En eitt helsta ágreiningsefnið var og er krafa Sinn Fein um að írska, hið forna tungumál Íra, verði viðurkennd og fái stuðning. Það vilja DUP-liðar ekki heyra minnst á og Arlene Foster hefur látið hafa eftir sér að meira vit væri í að setja sérstök lög um pólsku því fleiri íbúar Norður-Írlands hafi pólsku að móðurmáli en írsku.

„Þetta er breskt land, ekki írskt"

Þessi afstaða virðist njóta stuðnings mótmælenda, að minnsta kosti var ekki annað að heyra á vegfarendum sem BBC ræddi við á Shankill road í Vestur-Belfast, helsta vígi mótmælenda og sambandssinna á Norður-Írlandi. „Þetta er breskt land en ekki írskt" sagði kona sem BBC ræddi við og karlmaður sagði hugmyndina hræðilega og stjórnmálamenn væru að svíkja almenning. Fyrir írskumælandi fólki og kaþólikkum er þetta spurning um viðurkenningu og sjálfsmynd. Þeir vilja að írskan verði að vera jafnrétthá, eins og gelískan í Skotlandi og velska í Wales. 

Engin sérlög um írsku

Það boðaði því ekki gott þegar Arlene Foster gaf út þá yfirlýsingu í gær að flokkur hennar nú ætlaði nú aldeilis ekki að samþykkja sérstök lög um írskuna, hún yrði ekki skyldunámsgrein í skólum, enginn yrði skyldaður til að læra írsku og götuskilti yrðu ekki á írsku. Nýr leiðtogi Sinn Fein á öllu Írlandi, Mary Lou McDonald, sem tók við fyrir nokkrum dögum af Gerry Adams, segir að til að ná samkomulagi þurfi pólitískan vilja. McDonald sagði og að leiða yrði mál til lykta í þessari viku. Og nú hafa þau verið leidd til lykta, allt fór út um þúfur, engin heimastjórn verður á Norður-Írlandi í bráð.

Óþægilegt mál fyrir bresku stjórnina

Þessi niðurstaða verður varla vinsæl í Lundúnum. Bresku stjórninni var í mun að losna við óþægilegt mál í bakgarðinum sem spillir samskiptum við stjórnina í Dyflinni þegar viðræður um Brexit eru að hefjast að nýju. Bretar vonuðust til eiga bandamann innan Evrópusambandsins í Írum. Viðræðuslitin á Norður-Írlandi verða ekki til að bæta sambúð Bretlands og Írska lýðveldisins.

Fjárlög í höndum bresku stjórnarinnar

Arlene Foster hefur sjálf ekki veitt viðtöl frá því hún gaf út yfirlýsinguna um viðræðuslitin. Simon Hamilton, fyrrverandi efnahagsráðherra Norður-Írlands, kom fram á blaðamannafundi nú áðan fyrir hönd Lýðræðislega sambandsflokksins. Hann sagði að DUP hefði verið reiðubúið til að ná samkomulagi um stöðu írskunnar en það yrði að vera hluti af stærra samkomulagi. Hamilton sagði að breska stjórnin yrði nú að samþykkja fjárlög fyrir Norður-Íra og taka aðrar nauðsynlegar ákvarðanir um málefni Norður-Írlands. Hann sagði jafnframt að vera Theresu May hefði ekki hjálpað.

Sinn Fein kennir óbilgirni DUP um hvernig fór

Michelle O'Neill, leiðtogi Sinn Fein á Norður-Írlandi ræddi svo við fréttamenn og gat ekki leynt vonbrigðum sínum með hvernig hefði farið og skellti skuldinni algerlega á DUP. Við höfðum náð samkomulagi sagði O'Neill en DUP stóð ekki við það sagði hún ítrekað. Það væri óbilgirni DUP forystunnar að kenna að slitnað hefði upp úr á síðustu stundu. Fréttaskýrendur segja líklegt að Foster hafi ekki tekist að sannfæra aðra í forystunni um það væri þess virði að gefa eftir varðandi stöðu írsku. Flestir aðrir stjórnmálaleiðtogar á Norður-Írlandi hafa lýst vonbrigðum með niðurstöðuna. 

Tortryggni og andúð
 

Tortryggnin og gagnkvæm andúð mótmælenda og kaþólikka hefur enn á ný sigrað. Það er liðin tíð að gott samstarf og trúnaður ríki á milli DUP og Sinn Fein eins og var þegar séra Ian Paisley og Martin McGuinness hófu fyrst samstarf. Þá kom mörgum á óvart að þessum fornu fjendum gekk afar vel að vinna saman, svo vel að með þeim tókst vinátta sem enginn hefði trúað aðeins nokkrum árum fyrr. En nú eru bæði Paisley og McGuinnes látnir. 
 

 

Mynd með færslu
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi