Forlagið enn langstærst á bókamarkaði

Innlent
 · 
Menningarefni
 · 
Neytendamál
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Forlagið enn langstærst á bókamarkaði

Innlent
 · 
Menningarefni
 · 
Neytendamál
21.12.2017 - 13:11.Brynjólfur Þór Guðmundsson
Forlagið er enn langstærsta bókaútgáfan á Íslandi með 45 til 50 prósenta markaðshlutdeild og fjórfalt stærra en næst stærsta bókaútgáfan, Bjartur-Veröld. Því er fyrirtækið með markaðsráðandi stöðu og ekki ástæða til að fella niður skilyrði sem sett voru fyrir samruna JPV og Máls og menningar árið 2008. Þetta er mat Samkeppniseftirlitsins eftir umfangsmikla athugun á íslenskum bókamarkaði.

Forlagið óskaði eftir því að skilyrði fyrir samruna JPV og Máls og menningar undir nafni Forlagsins yrðu felld úr gildi eða dregið úr þeim. Samkeppniseftirlitið telur hins vegar að staða Forlagsins á markaði hafi ekki breyst í meginatriðum á þeim tæpa áratug sem liðinn er frá samrunanum. Þannig sé útgáfan með um það bil fjórfalt meiri hlutdeild en næst stærsta bókaútgáfan og með miklu meiri breidd í útgáfu en aðrir bókaútgefendur. Fyrirtækið er því metið með markaðsráðandi stöðu á bókamarkaði. 

Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu segir að það sé mikilvægt að skilyrðin gildi áfram. Þau snúist helst að því að Forlagið beiti ekki styrk sínum gagnvart keppinautum og skaði þannig samkeppni. 

Skilyrðin sem eru í gildi eru meðal annars:

 

  • Forlagið má aðeins semja um útgáfurétt á einum bókartitli hverju sinni við hvern rithöfund.
  • Forlaginu er óheimilt að veita endurseljendum bóka afslátt frá heildsöluverði bóka sinna nema Forlagið geti með óyggjandi hætti sýnt fram á kostnaðarlegt hagræði af viðskiptum við viðkomandi endurseljanda sem sé í samræmi við afsláttinn.
  • Forlaginu er óheimilt að mismuna endurseljendum bóka í hvers kyns kynningarstarfi, auglýsingaherferðum, eða með efni sem snýr að uppstillingu og auglýsingu bóka í verslunum endurseljenda nema slík mismunun byggist á almennum viðskiptalegum sjónarmiðum.
  • Forlaginu er óheimilt að gera hvers kyns einkakaupasamninga við endurseljendur bóka.
  • Forlaginu er óheimilt að hafa nokkur afskipti af söluverði endurseljenda þeirra bóka sem félagið gefur út eða birta með nokkru móti söluverð endurseljenda.