Fluglest minnkar umferð mikið á Reykjanesbraut

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Runólfur Ágústsson forsvarsmaður Fluglestarinnar-þróunarfélags, sem undirbýr nú fluglest milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, segir að búið sé að afskrifa að endastöð lestarinnar verði í Straumsvík. Lestin muni minnka umferð á Reykjanesbraut um 25-30%

Drög að samningum við sveitarfélögin um skipulagsmál tengd fluglestinni milli Keflavíkur og Reykjavíkur eru tilbúin og hafa öll sveitarfélög sem eiga hagsmuna að gæta samþykkt þau, nema Hafnarfjörður. Fram kom í minnisblaði frá lögmanni hjá bænum að ýmsu væri enn ósvarað, til dæmis um tengingu við borgarlínu og áhrif á aðrar samgöngubætur, aðallega á Reykjanesbraut.

Runólfur sagði í Morgunútvarpinu á Rás tvö í morgun að þetta væri byggt á úreltum gögnum. Til dæmis sé búið að afskrifa að endastöð lestarinnar verði í Straumsvík eins og velt var upp í minnisblaðinu. „Bæði vegna þess að ferðatíminn var allt of mikill og tengingin við Borgarlínuna var líka óheppileg. Topparnir í nytingu á væntanlegri Borgarlínu eru milli 8 og 9 á morgnana og þá eru líka topparnir í nýtingu á fluglestinni.“

Því er nú gert ráð fyrir að lestin fari í göngum frá Straumsvík að BSÍ. Ein stoppistöð verði í suðurhluta borgarinnar. Þessi mál verði skoðuð nánar í skipulagsvinnunni sem fer fram í hverju sveitarfélagi fyrir sig. 

Runólfur segir að ef Hafnarfjörður afgreiði skipulagið eins og önnur sveitarfélög hafi gert, verði hægt að fara í næsta hluta vinnunnar. Fyrir utan skipulagið sjálft er það rannsóknir á jarðlögum í Reykjavík og hönnun á lestinni. Áætlað er að þetta taki þrjú ár og framkvæmdatíminn verði fimm ár. Því gæti lestin verið tilbúinn árið 2026 gangi allar áætlanir eftir. Kostnaður er áætlaður um 100 milljarðar en verkefnið verður fjármagna í einkaframkvæmd. Fjárfestingin á að borga sig upp á 30 árum.

Runólfur segir að lestin hafi mikil áhrif á umferð á leið sinni. „Þegar við opnum á árunum 2025-2026 gera umferðarspár ráð fyrir því að við séum að draga úr umferð á Reykjanesbraut um 25-30% og á einstökum leiðum borgarinnar minnkar hún um 3-18%.“

 

 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi