Flóttafólk fórst undan strönd Líbíu

06.01.2018 - 20:44
Mynd með færslu
 Mynd: ERT
Að minnsta kosti 25 flóttamenn drukknuðu þegar gúmmífleytu þeirra hvolfdi undan ströndum Líbíu í dag. Hugsanlegt er talið að 150 hafi verið um borð. Ítalski sjóherinn sendi skip á vettvang. Áhöfn þess tókst að bjarga 85 manns úr sjónum. Átta lík fundust.

Fyrsta slys ársins?

Þetta er í fyrsta sinn á árinu sem flóttafólk lendir í sjóslysi á Miðjarðarhafi, svo að vitað sé. Að sögn björgunarsveita hefur fjöldi smyglbáta lagt á hafið að undanförnu. Ómögulegt er að segja hvort einhverjir þeirra hafa farist eftir að nýtt ár gekk í garð. Sjóslysið í dag varð á alþjóðlegu hafsvæði, um fjörutíu sjómílur undan Líbíuströndum. Áhöfn eftirlitsflugvélar á vegum Evrópusambandsins kom auga á bátinn, þar sem hann marraði í hálfu kafi, og lét björgunarsveitir vita.

Hundruð hafa náð til Ítalíu

Að sögn hjálparsamtakanna Lækna án landamæra er vitað um 3.116 flóttamenn sem drukknuðu á Miðjarðarhafi í fyrra, þegar þeir reyndu að komast frá Norður-Afríku til Evrópu. Á fyrstu sex dögum þessa árs hefur rúmlega fjögur hundruð tekist að komast til Ítalíu. Þeir voru 729 á sama tíma 2017.

Flóttamannastraumurinn minnkar

Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins, birti í gær upplýsingar um fjölda flóttamanna sem náðu til Evrópu í fyrra. Alls voru um 119 þúsund skráðir í flóttamannamiðstöðvum á Ítalíu. Þeir voru 181 þúsund árið 2016. Fækkunin nam 34 prósentum. Ástæðan er fyrst og fremst sú að ítalska strandgæslan hóf að aðstoða Líbíumenn við eftirlit með bátsferðum frá landinu. Með því móti hefur tekist að snúa við fjölda smyglbáta sem ella hefði verið siglt yfir hafið.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV