Fljúga yfir Öræfajökul og mæla yfirborðið

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Magnússon
Flogið verður yfir Öræfajökul í dag til að mæla yfirborð hans. Sigketill Öræfajökuls hefur víkkað á rúmlega þremur vikum og sprungumynstur er orðið greinilegra. Flogið verður yfir jökulinn á flugvél frá Isavia sem búin er radar-hæðarmæli.

Að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, jarðeðlisfræðings hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, eru góðar aðstæður til flugs yfir jökulinn í dag. Ætlunin er að kanna stærð og dýpt sigketilsins, hvernig hann hefur breyst og hversu mikið vatn hefur runnið undan honum. Niðurstaðna mælinganna er að vænta síðdegis í dag.

Vöktun við Öræfajökul hefur verið aukin til muna á síðustu vikum. Að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni, hafa verið settir upp vatnamælar í Virkisá, Skaftafellsá, Kotá og Kvíá. Nýlega var GPS-stöð bætt við á svæðinu og eru þær því nú samtals þrjár. Einnig hefur nokkrum vefmyndavélum verið komið upp á svæðinu og nýlega var jarðskjálftamælum bætt við. 

Gulur litakóði varðandi flug yfir jökulinn er enn í gildi. Hann er gefinn út þegar eldstöð sýnir meiri virkni umfram venjulegt ástand. „Gula litakóðanum verður ekki aflétt fyrr en við teljum okkur hafa séð samanburð út frá nýjum mælingum,“ segir Einar.  

Lítið kvikuinnskot hefur orðið í sunnanverðum Öræfajökli. Jarðfræðingur sagði á fimmtudag í samtali við fréttastofu að slík atburðarás geti tekið langan tíma og að óljóst væri hvort og þá hvenær hún endi með eldgosi. 

Í færslu á Facebook-síðu Eldfjallafræði og náttúruvárhóps Háskóla Íslands segir að sprungumynstur í sigkatli Öræfajökuls hafi þéttst mikið í gær og að hann virðist hafa víkkað síðan 17. nóvember. Þá er lögun hans orðin ílöng en var áður hringlótt. 

Fréttin hefur verið uppfærð.