Fljúga yfir Öræfajökul á næstu dögum

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Magnússon
Jarðvísindamenn fara með flugvél frá Isavia yfir Öræfajökul á næstu dögum til að mæla umfang sigketils sem þar myndaðist í jarðhræringum fyrr í vetur. Samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands hefur dregið mikið úr skjálftavirkni í jöklinum. Verið er að bíða eftir góðum aðstæðum til flugs yfir jökulinn og til mælinga á sigkatlinum.

Síðasta mæling á sigkatlinum úr lofti var gerð um miðjan desember. Kristín Jónsdóttir, fagstjóri Jarðvár hjá Veðurstofu Íslands, segir að kominn sé tími á nýja mælingu úr flugi. „Við sjáum að verulega hefur dregið úr skjálftavirkni í jöklinum. Fyrirliggjandi gögn benda til þess ástandið sé frekar stöðugt. Það er nauðsynlegt að sinna reglulegu eftirliti,“ segir Kristín. 

Aukin vöktun hefur verið við jökulinn eftir að jarðhræringar hófust þar í haust. Jarðskjálftamælum hefur verið bætt við á svæðinu. Þá hafa vatnamælar verið settir upp í Virkisá, Skaftafellsá, Kotá og Kvíá. Gulur litakóði varðandi flug yfir jökulinn er enn í gildi. Hann er gefinn út þegar eldstöð sýnir virkni umfram venjulegt ástand. 

Fjallgöngugarpurinn Einar Rúnar Sigurðsson, sem reglulega gengur á Hvannadalshnúk, greindi frá því í viðtali við fréttastofu á þriðjudag að í göngu sinni á nýársdag hafi honum virst sem sigketillinn hefði dýpkað töluvert.