Mynd með færslu
30.09.2017 - 09:32.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Þriðja plata Maus, Lof mér að falla að þínu eyra, ein af merkisplötum íslensks rokks, var endurútgefin á vínyl fyrir stuttu. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Það er merkilegt hversu skýrt maður getur séð hluti (og heyrt) þegar maður kemur að þeim aftur eftir einhvern tíma, búinn að stíga frá því að vera í þeim miðjum getum við sagt. Að lifa og hrærast í einhverju getur gert það að verkum að þú tekur því sem sjálfsögðu, ófær um að greina hversu stórmerkilegt það er í raun.

Stigið út fyrir

Ég varð óþyrmilega var við þetta þegar ég og Jónatan Garðarsson settumst niður til að skrifa bókina 100 bestu plötur Íslandssögunnar árið 2009. Maus átti þar eina plötu, þessa hér, sem var þeirra þriðja. Ég lagðist í endurhlustun á efni sveitarinnar, meira en áratug eftir að þetta hafði verið yfir um og í kring og sjá: Vá! Þvílík hljómsveit! Það fyrsta sem ber að nefna er einfaldlega smitandi kraftur ungra manna sem hafa engu að tapa og allt að vinna.

Mynd með færslu
 Mynd: Maus

Athugið það að Maus spratt svo gott sem fullsköpuð úr höfði Seifs, frá fyrstu æfingu eða svo gott sem var á ferðinni þétt og gott band. Þannig vann það Músíktilraunir með léttum leik og fyrstu tvær plöturnar eru frábærar. Allar kenningar heimsins ... og ögn meira (1994) og Ghostsongs (1995) eru grófslípaðar vissulega, innihaldið surgandi kröftugt og hart nýbylgjurokk og áhrifavaldar eins og Cure, Þeysarar og nýbylgjusveitir áranna á undan ekki langt undan. Eins og það á að vera. Ástríðan og orkan sem leikur um þessi verk er hreint út sagt mögnuð; sautján og átján ára strákar spilandi langt „upp fyrir sig“ ef svo má segja.

Næsta stig

En allt þetta var tekið á næsta stig með þessari plötu sem sýnir hversu ört Maus hafði þróast (og strákarnir þá rétt skriðnir yfir tvítugt). Hér standa þeir á hátindi ferils síns, meðlimir hreinlega ekki orðnir nógu gamlir til að hika eitthvað eða hugsa sig um en um leið nógu gamlir til að vera ekki með neitt fát eða fum. Hér eru markviss skref tekin inn á aðgengilegri brautir án þess þó að gefa einhvern afslátt af listrænum heilindum og það er merkilega mikið jafnvægi á milli grípandi poppkróka og framsæknari spretta.

Mynd: Bjarni Grímsson.

Öll spilamennska er í hæstu hæðum; snilldartrommuleikur orkhússins Daníels Þorsteinssonar, gítarlykkjur Páls Ragnars Pálssonar, grimmur og þéttur bassaleikur Eggerts Gíslasonar og svo tilfinningaþrunginn og beittur söngur Birgis Arnar Steinarssonar sem stendur keikur og sjarmerandi í framlínunni. Lög eins „Poppaldin“ og „Égímeilaðig“ fengu talsverða útvarpspilun og verkið í heild skipaði sveitinni í fremstu röð íslenskra rokksveita. Þar sem ég renni þessari plötu enn eina ferðina, snemma á föstudagsmorgni, verður maður enn sannfærðari. Þetta er gegnheilt meistarastykki (og lítur afskaplega fallega út á gegnsæjum, ljósbláum vínyl).

Hnykkur

Og áður en ég fer. Maus átti svo svo eftir að hnykkja enn frekar á sterkri stöðu sinni með næstu plötu, Í þessi sekúndubrot sem ég flýt (1999) og síðasta hljóðversverkið, Musick (2003) er einnig firnasterkt. Semsagt, það er ekki snöggur blettur á ferli þessarar merku sveitar. Magnað. Já, magnað segi ég!

Tengdar fréttir

Popptónlist

Týnt tónlistarmyndband fannst í Gullkistunni

Popptónlist

Lof mér að falla að þínu eyra