„Fjarlægðin“ komin í hús – ruslafatan fjarlægð

06.07.2017 - 12:32
Bragi Valdimar Skúlason hefur samið glænýjan texta fyrir tónlistarmanninn Ásgeir, en hann mun taka upp lag með textanum síðar í dag. Skorað var á Braga í beinni útsendingu skömmu fyrir hádegi að semja nýjan texta og fékk hann aðeins um klukkustund til verksins.

Nú stendur yfir maraþonútsending, eða svokallað hægvarp Ásgeirs þar sem hann tekur upp lög beint á 7 tommu vínylplötur í hljóðverinu Hljóðrita í Hafnarfirði, samfleytt í 24 klukkutíma. Bein útsending hefur staðið yfir síðan í gær á RÚV2, RÚV.is og á Youtube-síðu Ásgeirs.

Bragi Valdimar Skúlason hafði lýst yfir óánægju sinni með að ruslatunnan á kaffistofunni væri sífellt í mynd í útsendingunni. Matthías Már, dagskrárgerðarmaður og Guðmundur Kristinn, tónlistarmaður sögðu Braga að hún yrði ekki fjarlægð nema að Bragi myndi semja nýjan texta fyrir Ásgeir og gáfu honum rétt rúman klukkutíma til verksins, eða til hádegis.

Bragi skoraðist ekki undan þessari áskorun og sendi Guðmundi Kristni nýjan texta fyrir hádegi. Nýja lagið ber titilinn „Fjarlægðin“ og loforðinu samkvæmt var ruslafatan fjarlægð um leið. Lagið verður hljóðritað beint á plötu síðar í dag.

Bein útsending frá Hljóðrita stendur til kl. 17 í dag.