„Fjarlægðin“ eftir Braga Valdimar frumflutt

06.07.2017 - 17:07
Tónlistarmaðurinn Ásgeir flutti lag við glænýjan texta Braga Valdimars Skúlasonar, sem heitir „Fjarlægðin“ í beinni útsendinu úr Hljóðrita í dag. Bragi fékk aðeins um klukkustund til þess að semja textann en málið snerist um ruslafötu sem hann vildi fá fjarlægða.

Hægvarpinu „Ásgeir – beint á vínyl“ lauk klukkan 17 í dag, en Ásgeir hafði þá verið í heilan sólahring í hljóðverinu Hljóðrita í Hafnarfirði og tekið upp lög beint á 7 tommu vínylplötur, þar sem hvert eintak er eintakt. Alls tók hann upp á 30 plötur, alls 60 lög.

Eftir að Bragi Valdimar Skúlason hafði látið í ljós óánægju sína með ruslafötu á kaffistofu Hljóðrita, við félaga sinn Guðmund Kristin Jónsson, skoraði Guðmundur Kristinn á Braga að semja nýjan texta fyrir Ásgeir og gaf honum rétt rúman klukkutíma til verksins. Fyrr myndi ruslafatan ekki víkja. Bragi skoraðist ekki undan áskoruninni og sendi textann „Fjarlægðin“ sem hann samdi á um klukkutíma. Ruslafatan var í kjölfarið fjarlægð.

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá Ásgeir og hljómsveit flytja texta Braga á nokkuð óhefðbundinn hátt. Hér fyrir neðan má sjá textann í heild.