Mynd með færslu
13.01.2018 - 10:45.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Fjall er heiti nýrrar sólóplötu Egils Ólafssonar, og kemur hún út á forláta vínyl. Hér er mikið í lagt, hvort heldur í vinnslu, hönnun, textagerð, lagasmíðum eða spilamennsku. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Agli nægði ekki að gefa bara út plötu, heldur hefur hann fylgt henni rækilega úr hlaði með ýmis konar starfsemi. Egill er t.a.m. vel í takt við tímann að því leytinu til að hann hefur haldið úti mjög skemmtilegri og virkri fésbókarsíðu þar sem hann hefur skrifað um ferlið allt og birt ljósmyndir (sláið inn „Egill Ólafsson – Fjall“). Á síðunni hefur fólk verið að panta sér eintök af vínylnum og hefur Egill persónulega úthlutað fólki númeri eftir óskum, en upplagið er 300 tölusett eintök. Þetta segir mikið um natnina og næmnina sem er í kringum þetta allt. Útgáfuhóf plötunnar undirstrikaði þetta enn frekar en þar var allt útpælt, á boðstólum var m.a. fjallagrasate, sem hann og fjölskylda hans týndi í.  

Lífsgangan

Fjall er svokallað konseptverk, lífsgangan sjálf er yrkisefnið og fjallið tákn þar um. Fyrri hliðin kallast Austurhlíðin en sú síðari Vesturhlíðin, hvar menn taka að fikra sig niður hlíðina til móts við sólarlagið eftir uppgönguna. Egill er með valmenni mikil með sér, Matti Kallio er upptökustjóri, Helgi Svavar sér um trommur, Valdimar Kolbeinn um bassa, Eyþór Gunnarsson leikur á píanó/hljómborð og Timo Kämäräinen spilar á gítar. Þá syngur yndiskonan Sigríður Thorlacius í tveimur lögum og eitt lag var unnið með gömlum og mætum vini, Sigurði Bjólu. Upptökumeistari var svo Guðmundur Kristinn Jónsson.

Er ég spurði Egil um tónlistarleg einkenni plötunnar, og þá í samanburði við síðasta verk, Vetur, svaraði hann því að hún „einkennist af meira bíti, ágengari lagasmíðum og afdráttarlausari texta,“ og það mat er laukrétt. Umslagið, prýtt tréristu eftir Gunnlaug Scheving, gefur mögulega til kynna ofurmelankólíska tónlist í djúpum þjóðlaga-moll en svo er ekki. Lögin eru melódísk, með popp/rokk sniði og Egill tekur ofan fyrir ýmsum áhrifavöldum eins og Gentle Giant, Steely Dan og Bítlunum. Stílbrögð Egils finnast þá að sjálfsögðu víða, „Hósen Gósen“ er Þursalegt (og jafnvel smá arabískt) og „Í ljóði“ er stillt og snotur stemma í ætt við Spilverkið. Austurhlíðin er þyngri, enda eru menn að klifra upp þar, en Vesturhlíðin með léttari brag, enda menn tindilfættir á leið niður. Textar eru þá í algerum sérflokki. Má ég nota orðið viska hérna? Egill, reynslunni ríkari, lítur yfir farinn veg og setur alls kyns hluti í fallegt og ljóðrænt samhengi. Vináttuna fjallar hann t.d. um í laginu „Við erum dús“ og þar segir m.a. „Þú bægðir frá villu og vanda og vílu hugans ef sótti það að ... og við kunnum tímana tvenna að þegja, og takast í hendur ef allt annað brást“.

Sá allra besti

Egill er einn af okkar allra bestu mönnum. Hann er fjölfræðingur („polymath“), leikur á hin og þessi hljóðfæri, semur lög og texta, er drátthagur, leikur – allt er þetta honum náttúrulegt. Eins og ég skrifaði einhverju sinni í umsögn um eina af plötum Egils: „...hann er dæmdur til að þjóna listinni, er í raun heltekinn sköpunarþrótti og náðargáfu á því sviðinu, hvort sem honum líkar betur eða verr.“ Að lokum: „Gæskuna hefur þú bróðir – það ég finn.“

Tengdar fréttir

Popptónlist

Fjall

Tónlist

Sönnunargagnið er astraltertukubbur

Tónlist

Þjóðlegt og hljómþýtt

Tónlist

Stigið inn í birtuna